Fótbolti

Sara Björk knatt­spyrnu­kona ársins

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Sara Björk er knattspyrnukona Íslands, sjötta árið í röð.
Sara Björk er knattspyrnukona Íslands, sjötta árið í röð. Vísir/Vilhelm

KSÍ tilkynnti í gær að Sara Björk Gunnarsdóttir væri knattspyrnukona ársins 2020. Sjötta árið í röð. Sveindís Jane Jónsdóttir og Glódís Perla Viggósdóttir komu þar á eftir í valinu að þessu sinni.

Að valinu koma fjölmargir aðilar, meðal annars fyrrum landsliðsmenn, þjálfarar og forystufólk í knattspyrnuhreyfingunni.

Sara Björk Gunnarsdóttir, fyrirliði íslenska landsliðsins, er Knattspyrnukona ársins í sjöunda skipti og sjötta árið í röð. Sara Björk bætti landsleikjamet Katrínar Jónsdóttur og hefur nú leikið alls 136 leiki fyrir A-landslið Íslands. Hún spilaði stóra rullu í því að Ísland tryggði sæti sitt á Evrópumótinu 2022 en það er fjórða Evrópumótið í röð sem Ísland fer á.

Þá gekk hún til liðs við Frakklands- og Evrópumeistara Lyon þar sem hún gerði sér lítið fyrir og skoraði í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu.

„Það er alltaf mikill heiður að vera kosin knattspyrnukona ársins. Þetta hefur auðvitað verið svolítið sérstakt ár að mörgu leyti. Ég færði mig um set frá Wolfsburg yfir til Lyon eftir góð ár í Þýskalandi, hef verið ánægð með byrjunina hjá nýjum klúbbi og hlakka til framhaldsins, ekki síst með landsliðinu, þar sem við náðum okkar markmiði að tryggja sæti á EM. Það eru spennandi tímar framundan,“ sagði Sara Björk í stuttu spjalli við KSÍ um valið.

2. sæti - Sveindís Jane Jónsdóttir

Sveindís Jane Jónsdóttir er í 2. sæti yfir knattspyrnukonur ársins. Hún kom eins og stormsveipur inn í íslenska landsliðið eftir að hafa spilað lykilhlutverk í mögnuðu liði Breiðabliks. Hún kom í Kópavoginn á láni frá Keflavík og stóð svo sannarlega fyrir sínu.

Skoraði hún 14 mörk í aðeins 15 leikjum og var markahæst í Pepsi Max deild kvenna ásamt Öglu Maríu Albertsdóttur.

Í heildina lék hún fimm A-landsleiki árið 2020 og skoraði í þeim tvö mörk.

Sveindís Jane Jónsdóttir skoraði tvö mörk í sínum fyrsta A-landsleik. Geri aðrir betur.VÍSIR/VILHELM

3. sæti - Glódís Perla Viggósdóttir

Í þriðja sæti er svo Glódís Perla Viggósdóttir. Hún var einn besti leikmaður sænsku úrvalsdeildarinnar þar sem lið hennar Rosengård lenti í öðru sæti. Hún var tilnefnd sem besti varnarmaður deildarinnar á uppskeru hátíð sænsku úrvalsdeildarinnar.

Glódís Perla lék alls átta landsleiki á árinu og er komin með 89 leiki á ferlinum, magnað afrek hjá leikmanni sem er aðeins 25 ára gamall.

Glódís Perla Viggósdóttir hefur alls leikið 89 leiki fyrir íslenska A-landsliðið. Ekki allir hafa verið leiknir í veðri sem þessu.VÍSIR/VILHELM

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×