Fótbolti

Ramos sagður tilbúinn að hlusta á önnur tilboð

Anton Ingi Leifsson skrifar
Er Ramos á leið burt frá þeim hvítklæddu í Madríd?
Er Ramos á leið burt frá þeim hvítklæddu í Madríd? Nicolò Campo/Getty

Samningur Sergio Ramos, varnarmanns og fyrirliða Real Madrid, rennur út næsta sumar og nú segja spænskir miðlar frá því að spænski fyrirliðinn sé byrjaður að líta í kringum sig.

Miklar viðræður hafa átt sér stað á milli Ramos og Real Madrid en ekki er nein lausn í sjónmáli. Frá byrjun janúar getur Ramos því rætt við önnur lið og spænska útvarpsstöðin Ondo Cero segir Ramos hugsa um að yfirgefa félagið.

Hann er talinn horfa til meðal annars Englands og mun hann ekki ýta tilboðum úr ensku úrvalsdeildinni út af borðinu en ekki er reiknað með að Ramos eigi í erfiðleikum með að finna sér nýtt lið þrátt fyrir að vera orðinn 34 ára.

Hann hefur spilað 660 leiki fyrir Real Madrid og einnig 178 leiki fyrir spænska landsliðið. Hann hefur unnið átján titla fyrir bæði Real og spænska liðið en Real er talið vilja lækka launin hjá félaginu og það gæti fælt Ramos burt.

PSG hefur áður verið orðað við Ramos en þeir eru taldir vera reiðubúnir að bjóða honum þriggja ára samning með átján milljónir evra í vasann á hverju einasta ári.

Zinedine Zidane, stjóri Real, sagði þó í viðtali eftir leik Real á dögunum að hann hefði engar áhyggjur af því að Ramos yrði ekki áfram hjá félaginu. Hann hefur spilað með Real frá 2005 er hann kom frá Sevilla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×