Erlent

Baðst afsökunar á aðkomu sinni að grimmilegum morðum fyrir aftöku

Samúel Karl Ólason skrifar
Brandon Bernard var 40 ára gamall þegar hann var tekinn af lífi í gærkvöldi. Hann var dæmdur til dauða árið 1999.
Brandon Bernard var 40 ára gamall þegar hann var tekinn af lífi í gærkvöldi. Hann var dæmdur til dauða árið 1999. Vísir/AP

Brandon Bernard, sem dæmdur var til dauða árið 1999, var tekinn af lífi í Bandaríkjunum í gærkvöldi. Hann var fyrstur af fimm alríkisföngum í Bandaríkjunum sem ríkisstjórn Donalds Trump, fráfarandi forseta, fyrirskipaði nýverið að ætti að taka af lífi áður en hann lætur af embætti í janúar.

Bernard var sprautaður með eitri í fangelsi í Indiana í gærkvöldi. Hann var 40 ára gamall og yngsti fangi sem tekinn er af lífi í alríkiskerfi Bandaríkjanna í nærri því 70 ár, samkvæmt frétt BBC.

Hann var einn úr hópi manna sem myrtu hjón á grimmilegan hátt í Texas árið 1999. Bernard og fjórir aðrir táningar rændu þau Todd og Stacie Bagley og þvinguðu þau í skott bíls þeirra. Þar skaut hinn nítján ára gamli Christopher Vialva þau til bana og Bernard kveikti í bílnum.

Vialva var tekinn af lífi fyrr á árinu.

Áður en hann var tekinn af lífi bað Bernard fjölskyldu Bagley hjónanna afsökunnar. Hann sagðist ekki geta sagt meira en það og sagðist hann hafa beðið eftir tækifæri til að biðjast afsökunar. Þá bæði á þeim sársauka sem hann olli fjölskyldumeðlimum hjónanna og eigin fjölskyldu.

Áður en ríkisstjórn Trumps hóf aftökur alríkisfanga á nýjan leik fyrr á árinu höfðu einungis þrír menn verið teknir af lífi af alríkinu á síðustu 56 árum. Fyrsta aftakan fór fram í júlí en þá hafði alríkið ekki tekið fanga af lífi í sautján ár.

Gangi eftir að taka alla fimm mennina af lífi fyrir 20. janúar verður Trump sá forseti Bandaríkjanna sem hefur fyrirskipað flestar aftökur á vegum alríkisins í heila öld eða alls þrettán, en í Bandaríkjunum er algengara að aftökur séu framkvæmdar af einstaka ríkjum frekar en á alríkisstiginu.

Samkvæmt AP fréttaveitunni ræddi móðir Todd Bagley við fjölmiðla eftir aftökuna í gærkvöldi og færði hún Trump, William Barr dómsmálaráðherra, og öðrum starfsmönnum dómsmálaráðuneytisins þakkir sínar. Hún sagði að án þessa ferlis hefði fjölskylda hennar aldrei fengið þá lokun sem þau þurftu.

Þá sagði hún afsökunarbeiðni Bernard og Vialva hafa hjálpað henni mikið. Þar að auki sagðist hún fyrirgefa þeim.

Næsta aftaka á að fara fram í dag. Þá á að taka hinn 56 ára gamla Alfred Bourgeois af lífi fyrir að hafa myrt tveggja ára dóttur sína.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.