Enski boltinn

Jamie Redknapp sagði söguna af því þegar hann kom sautján ára til Liverpool

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jamie Redknapp var um tíma fyrirliði Liverpool liðsins.
Jamie Redknapp var um tíma fyrirliði Liverpool liðsins. Getty/Clive Brunskill

Jamie Redknapp lék með Liverpool í áratug en knattspyrnustjórinn sem sóttist svo mikið eftir því að fá hann stýrði honum þó aldrei í leik.

Jamie Redknapp lék með Liverpool frá 1991 til 2002 en hann var ekki búinn að halda upp á átján ára afmælið þegar hann kom til félagsins.

Redknapp hefur nú sagt söguna af því þegar hann skipti yfir frá Bournemouth til Liverpool í janúar 1991. Kenny Dalglish, sem þarna var knattspyrnustjóri Liverpool, hafði mikla trú á stráknum og vann markvisst af því að fá hann.

Dalglish keypti hann á endanum á 350 þúsund pund 15. janúar 1991 en náði þó aldrei að setja hann inn á völlinn. Kenny Dalglish hætti óvænt sem knattspyrnustjóri Liverpool í febrúar 1991.

Redknapp fékk fyrsta tækifærið með aðalliði Liverpool í október 1991 en þá var Graeme Souness knattspyrnustjóri liðsins. Redknapp var á þeim tíma yngsti Liverpool leikmaðurinn til að spila Evrópuleik.

Hér fyrir neðan má sjá skemmtilegt myndband af því þegar Redknapp segir frá þessum tíma þegar Dalglish var að reyna að sannfæra hann um að koma til Liverpool og hver fyrstu kynni hans voru af stórstjörnum Liverpool liðsins sem voru á þeim árum búnir að vinna fjölda titla með liðinu.

Það var á endanum John Barnes sem tók hann undir sinn væng og þeir eru enn miklir vinir í dag.

Jamie Redknapp lék 237 deildarleikir fyrir Liverpool og alls 308 leiki í öllum keppnum. Hans besta tímabil var 1998-99 þegar hann skoraði 8 mörk í 34 leikjum en hann var þá einnig í enska landsliðinu.

Redknapp vann aðeins þrjá titla með Liverpool, enska deildabikarinn 1995, Samfélagsskjöldinn 2001 og ofurbikar Evrópu 2001.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×