Innlent

Fjallaskíðafólk beðið um að yfirgefa Bláfjöll af ótta við banaslys

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Frá fallegum degi í Bláfjöllum. Óvíst er hvenær hægt verður að opna skíðabrekkurnar almenningi.
Frá fallegum degi í Bláfjöllum. Óvíst er hvenær hægt verður að opna skíðabrekkurnar almenningi. Vísir/Vilhelm

Óhætt er að segja að sprengja hafi orðið í fjallaskíðamennsku á landinu og er nú svo komið að fjöldi þeirra í Bláfjöllum er orðinn svo mikill að starfsmenn skíðasvæðisins geta ekki unnið vinnu sína í brekkunum. Þetta kemur fram á Facebook-síðu Bláfjalla.

„Kæru fjallaskíðarar. Núna er fjöldi af skinnurum orðinn svo mikill að við getum ekki lengur unnið brekkur hér í Bláfjöllum.

Ég verð að biðja ykkur um að virða það að ganga ekki upp né skíða niður í upplýstum brekkum,“ segir á heimasíðunni.

Fram kemur að nóg sé af snjó bæði í Suðurgili og Eldborgargili, Framsvæðinu.

„Það hefur sem betur fer ekki orðið banaslys enn þá hér á landi eins og erlendis af þeirri ástæðu að skinnari hefur fengið spilvírinn sem troðarinn hangir í sig og banað viðkomandi. En það hefur nokkrum sinnum staðið tæpt,“ segir í tilkynningu Bláfjalla.

„Ég held að við hljótum öll að vera sammála um láta það ekki gerast. Við þurfum klárlega líka að bæta okkur í upplýsingagjöf og erum að vinna í því.“

Sem stendur eru aðeins börn fædd árið 2005 og síðar sem æfa skíðaíþróttir sem mega nota lyfturnar í Bláfjöllum samkvæmt tilmælum yfirvalda. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×