Fótbolti

Mbappe: Stoltur af liðinu fyrir að hafa gengið af velli

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kylian Mbappe sést hér fyrir leik en leikmenn beggja fór niður á hné í miðjuhringnum til þess að styðja við baráttuna gegn kynþáttafordómum.
Kylian Mbappe sést hér fyrir leik en leikmenn beggja fór niður á hné í miðjuhringnum til þess að styðja við baráttuna gegn kynþáttafordómum. EPA-EFE/IAN LANGSDON

Kylian Mbappe, framherji franska liðsins Paris Saint Germain, var mjög ánægður með viðbrögð liðsfélaga sinna þegar þeir gengu af velli með leikmönnum Istanbul Basaksehir í þriðjudagskvöldið.

Liðsmenn Istanbul Basaksehir töldu að fjórði dómari leiksins hafi gerst sekur um rasisma gagnvart aðstoðarþjálfar liðsins, Pierre Webo, þegar hann var að benda dómara leiksins á það hver ætti að fá rautt spjald á varamannabekknum.

Það þurfti að fresta leiknum um sólarhring því leikmenn Istanbul Basaksehir neituðu að spila ef sami fjórði dómari væri enn að störfum.

Liðin spiluðu síðan með nýtt dómarateymi í gær og Paris Saint-Germain vann leikinn 5-1. Kylian Mbappe skoraði tvö mörk en Neymar var með þrennu.

Leikmenn beggja liða fóru niður á hné í miðjuhringnum fyrir leikinn.

„Við erum orðnir þreyttir á þessu og viljum ekki þurfa að ganga í gegnum svona aftur,“ sagði Kylian Mbappe eftir leikinn.

„Auðvitað er ég stoltur af því sem við gerðum. Við vorum ekki vonsviknir með að halda ekki áfram leik. Við tókum ákvörðun og við erum stoltir af henni,“ sagði Mbappe.

„Menn sögðu ýmislegt en það er ekkert áhrifameira en að láta verkin tala,“ sagði Mbappe.

Kylian Mbappe tók met af Lionel Messi í gær en hann er nú yngsti leikmaðurinn sem nær að skora tuttugu mörk í Meistaradeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×