Bíó og sjónvarp

Kvik­myndir Warner Bros. frum­sýndar í kvik­mynda­húsum og á streymis­veitum sam­tímis

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Wonder Woman 1984 verður frumsýnd á HBO Max og í kvikmyndahúsum vestanhafs á jóladag.
Wonder Woman 1984 verður frumsýnd á HBO Max og í kvikmyndahúsum vestanhafs á jóladag. Getty/Alexandre Schneider

Allar 17 kvikmyndirnar sem kvikmyndaframleiðandinn Warner Bros. ætlar að frumsýna á næsta ári verða frumsýndar samtímis í kvikmyndahúsum og á streymisveitunni HBO Max.

Meðal myndanna sem stendur til að frumsýna á næsta ári eru Suicide Squad 2, Godzilla vs. Kong, Dune og The Matrix 4.

Í tilkynningu frá framleiðslufyrirtækinu kemur fram að stór ástæða þess að kvikmyndirnar verði ekki aðeins sýndar í kvikmyndahúsum til að byrja með, eins og venjan er, sé kórónuveirufaraldurinn. Þó að bóluefni verði tilbúið og komið í mikla dreifingu telur fyrirtækið að fólk muni ekki fara að sækja kvikmyndahús í Bandaríkjunum fyrr en í fyrsta lagi næsta haust.

Aðrir kvikmyndaframleiðendur hafa haldið í vonina að fólk verði farið að sækja kvikmyndahús mun fyrr en Warner Bros. telur að kvikmyndahús muni starfa takmarkað á fyrstu mánuðum ársins.

Úr kvikmyndinni Dune sem frumsýnd verður á næsta ári. vísir

Til stendur að þessi aðferð við frumsýningu kvikmynda frá fyrirtækinu verði aðeins í gildi árið 2021 en í frétt New York Times er bent á að ólíklet sé að það verði möguleiki fyrir fyrirtækið að fara aftur í sama farveg og það var í fyrir faraldurinn.

Almenningur verði orðinn vanur því, og muni líklega búast við því, að kvikmyndir verði frumsýndar á streymisveitum samtímis og í kvikmyndahúsum. Því sé ólíklegt að kvikmyndaframleiðendur láti myndir einungis vera í sýningu í kvikmyndahúsum í einn og hálfan mánuð líkt og tíðkast hefur hingað til.

Áhorfendur munu þó ekki þurfa að bíða eftir því að myndir fyrirtækisins verði frumsýndar á sama tíma í kvikmyndahúsum og á streymisveitum þar til eftir áramót. Til stendur að kvikmyndin Wonder Woman 1984 verði frumsýnd í kvikmyndahúsum og á streymisveitum á jóladag.

Kvikmyndirnar 17 frá Warner Bros., sem frumsýndar verða á næsta ári, munu þó fara í hefðbundna frumsýningu í kvikmyndahúsum eingöngu í löndum þar sem HBO Max er ekki í boði.


Tengdar fréttir

Disney leggur meiri áherslu á streymisveitur

Forsvarsmenn Walt Disney tilkynntu í gær að fyrirtækið myndi leikja meiri áherslu á Disney+ og aðrar streymisveitur í framtíðinni. Breytingar verði gerðar á rekstri fyrirtækisins með breyttar áherslur í huga.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.