Erlent

Tugir ein­stak­linga smitaðir af Co­vid-19 eftir „swing“-ráð­stefnu í New Or­leans

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Ráðstefnan var haldin í miðjum nóvember þrátt fyrir að smitum færi þá fjölgandi í Louisiana.
Ráðstefnan var haldin í miðjum nóvember þrátt fyrir að smitum færi þá fjölgandi í Louisiana. Getty/Chris Graythen

41 einstaklingur hefur greinst með Covid-19 eftir að hafa sótt svokallaða „swing“-ráðstefnu í New Orleans í Louisiana í Bandaríkjunum. Yfirvöld segja ráðstefnuna hafa verið viðburð sem stuðlaði að „ofurdreifingu“ kórónuveirunnar sem veldur Covid-19.

Ráðstefnan, sem gengur undir nafninu Naughty in N‘awlins eða „Óþekk í N‘awlins“, er haldin árlega í New Orleans. Í ár sóttu um 250 gestir ráðstefnuna, sem er mun minni fjöldi en í fyrra þegar þeir voru um 2000 talsins.

Ákveðið var að halda ráðstefnuna um miðjan nóvember síðastliðinn þrátt fyrir að smitum færi fjölgandi í Louisiana á þeim tíma.

Fjallað er um málið á vef Guardian þar sem segir að einn af ráðstefnugestum hafi verið lagður inn á spítala alvarlega veikur með Covid-19.

Bob Hannaford, skipuleggjandi ráðstefnunnar, segir að ef hann gæti farið aftur í tímann myndi hann sleppa því að halda ráðstefnuna.

„Ég myndi ekki endurtaka þetta ef ég vissi þá það sem ég veit núna. Þetta liggur þungt á mér og mun liggja þungt á mér þar til allir hafa náð sér að fullu,“ skrifar Hannaford í bloggfærslu um málið.

Hann segir að þátttakendur á ráðstefnunni hafi verið hvattir til að virða fjarlægðarmörk og að samskiptadagbækur hafi verið haldnar.

Þegar farið var að ræða við fólk eftir að smit greindust í tengslum við ráðstefnuna kom í ljós að þátttakendur hefðu passað sig vel fyrstu tvo dagana, aðeins verr þriðja daginn en svo á þeim fjórða, sem jafnframt var síðasti dagurinn, hafi þeir orðið kærulausir.

„Fólk sagði „Fuck it, þetta er síðasti dagurinn okkar“ og mörg viðurkenndu að slök viðleitni þeirra [til að virða sóttvarnareglur] á þessu síðasta degi sé líklegast ástæðan fyrir að þau smituðust,“ segir Hannaford.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.