Enski boltinn

Luiz keyrði heim þrátt fyrir svakalegt höfuðhögg

Anton Ingi Leifsson skrifar
Luiz liggur óvígur eftir höfuðhöggið.
Luiz liggur óvígur eftir höfuðhöggið. Catherine Ivill/Getty Images

David Luiz var með meðvitund og fékk þar af leiðandi leyfi frá læknum Arsenal að keyra heim frá Emirates leikvanginum í gær.

David Luiz og Raul Jimenez lentu í rosalegu samstuði í leik Arsenal og Wolves í gærkvöldi. Leikmennirnir skullu saman eftir hornspyrnu. Jimenez var borinn af velli en Luiz kláraði fyrri hálfleikinn.

Leikurinn var stopp í tæpar tíu mínútur vegna meiðslanna en Jiemenz var eins og áður segir borinn af velli. Hann þurfti súrefni og komst fyrst til meðvitundar er hann kom upp á sjúkrahús í Lundúnum.

Luiz spilaði þó fyrri hálfleikinn en var tekinn af velli í hálfleik. Mikið blæddi úr höfði hans og settu einhverjir spurningarmerki við að hann hafi klárað fyrri hálfleikinn.

Læknateymi Arsenal tók heilahristingsprófið á Luiz inni á vellinum sagði Mikel Arteta, stjóri félagsins, eftir leikinn og sagði að það hafi verið neikvætt. Því hafi hann klárað fyrri hálfleikinn.

Gary O’Driscoll, læknir Arsenal sem er talinn einn færasti læknir í bransanum, sagði að Luiz hafi verið við fulla meðvitund en hann fékk þar af leiðandi leyfi frá félaginu að keyra heim til sín eftir leikinn þar sem hann þurfti ekki að gangast undir frekari skoðun.

Brassinn fékk þó þau skilaboð að hann ætti að láta læknateymið vita ef hann myndi finna fyrir einhverjum einkennum um kvöldið eða nóttina eftir leikinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×