Viðvaranirnar gilda fram á nótt á Suðurlandi, Breiðafirði og Faxaflóa en á Suðausturlandi og Austfjörðum þar til annars vegar klukkan sex í fyrramálið og hins vegar til klukkan sjö.
Þá er viðvörun jafnframt í gildi til klukkan sex í fyrramálið á Miðhálendinu, til klukkan fimm í fyrramálið á Vestfjörðum og til klukkan 4:30 í fyrramálið á Ströndum og Norðurlandi vestra.
„Suðaustan 15-23 með snjókomu og síðar slyddu. Fer síðan yfir í rigningu um nóttina. Erfið akstursskilyrði,“ segir á viðvörunarvef Veðurstofunnar um þessar gulu viðvaranir.
Í dag verður hins vegar hæglætisveður á landinu, dálítil él norðantil framan af degi en annars víða bjart að því er segir í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar.
„Eftir hádegi kemur lítið lægðardrag upp að suðausturströndinni með snjókomu á Suðausturlandi og á Austfjörðum.
Vaxandi suðaustanátt seinnipartinn, 15-20 m/s og snjókoma suðvestantil í kvöld, en síðar slydda og rigning eftir því sem hlýnar í kvöld og nótt.
Skilin ganga yfir landið í kvöld og nótt með hvassviðri og snjókomu í flestum landshlutum og gular við varanir eru í gildi á öllu landinu að Norðurlandi Eystra og Austurlandi að Glettingi undanskildum.
Í fyrramálið snýst síðan í allhvassa suðvestanátt með skúrum og hægt kólnandi veðri. Um miðja vikuna snýst í norðanátt með snjókomu norðantil og kólnandi veðri um allt land,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.
Veðurhorfur á landinu:
Hæg breytileg átt, en norðvestan 5-13 m/s á Austfjörðum fram að hádegi. Lítilsháttar él norðantil, annars bjart með köflum, en snjókoma suðaustantil seinnipartinn. Frost 0 til 4 stig.
Vaxandi suðaustanátt, þykknar upp og hlýnar seint í dag, 10-20 í kvöld og snjókoma en síðar slydda, hvassast með suðurströndinni.
Fer að rigna í nótt, fyrst suðvestantil. Snýst í suðvestan 13-20 með skúrum, en léttir til norðaustanlands. Hiti 2 til 7 stig, en kólnar annað kvöld.
Á þriðjudag (fullveldisdagurinn):
Allhvöss eða hvöss sunnan- og síðar suðvestanátt með rigningu og hita 1 til 8 stig, mildast með suðurströndinni. Kólnar smám saman síðdegis með skúrum eða éljum, en léttir til norðaustanlands.
Á miðvikudag:
Allhvöss eða hvöss norðanátt og snjókoma norðantil, en heldur hægari vindur og víða él syðra. Frost 0 til 8 stig.
Á fimmtudag:
Útlit fyrir allhvassa norðnátt og snjókomu, en úrkomulítið sunnan heiða. Frost 4 til 12 stig, kaldast in til landsins.
Á föstudag:
Minnkandi norðanátt og snjókoma norðantil, en bjartviðri sunnanlands. Hiti breytist lítið.