Innlent

Kjaftshögg á Kirkjubæjarklaustri

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Sandra Brá Jóhannesdóttir, sveitarstjóri Skaftárhrepps, sem segir að lokun verslunarinnar á Kirkjubæjarklaustri sé kjaftshögg fyrir samfélagið.
Sandra Brá Jóhannesdóttir, sveitarstjóri Skaftárhrepps, sem segir að lokun verslunarinnar á Kirkjubæjarklaustri sé kjaftshögg fyrir samfélagið. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Sandra Brá Jóhannesdóttir, sveitarstjóri Skaftárhrepps segir það kjaftshögg fyrir íbúa sveitarfélagsins að Krónan ætli að loka Kjarvalsverslun sinni á Kirkjubæjarklaustri um áramótin.

Hljóðið í íbúum á Kirkjubæjarklaustri er þungt þessa dagana eftir að það spurðist út af einu matvöruversluninni á staðnum yrði lokað um áramótin. „Kjaftshögg fyrir samfélagið“, segir sveitarstjóri Skaftárhrepps.

Forsvarsmenn verslunarinnar Kjarvals á Kirkjubæjarklaustri tilkynntu í vikunni að versluninni yrði lokað um áramótin. Tilkynningin kom illa við íbúa á Klaustri og í sveitunum í kring, ásamt kjörnum fulltrúum í sveitarstjórn Skaftárhrepps, ekki síst hvað fyrirvarinn var stuttur.

Sandra Brá Jóhannesdóttir, sveitarstjóri segir hljóðið þung í íbúum.

„Já, þetta kom verulega flatt upp á okkur, þetta er kjaftshögg fyrir samfélagið. Það er talsverð reiði og fólk er brugðið, þetta er náttúrulega veruleg þjónustuskerðing og það hafa verið fleiri högg verið hérna undanfarin ár, bæði er ekkert pósthús hérna og bankinn er með verulega skerta starfsemi, þannig að þetta var dropinn sem fyllti mælinn, fólki er nóg boðið,“ segir Sandra Brá.

Heimamenn á Klaustri, sem eiga Systrakaffi hafa keypt húsnæði Kjarvals og þeir hafa hug á því að það verði aftur verslun í húsinu en hvernig þeim málum verður háttað veit engin.

En hvaða skýringu hafa forsvarsmenn Krónunnar, sem reka Kjarvalsverslunina á Kirkjubæjarklaustri gefið fyrir lokuninni?

„Bara fyrst og fremst að þetta sé ekki hagkvæm eining fyrir þá,“ sagði Sandra Brá, sem hefur verið falið af sveitarstjórn að leita leiða til að tryggja að áfram verði dagvöruverslun rekin í sveitarfélaginu.

650 manns búa í Skaftárhreppi, þar af um 200 á Kirkjubæjarklaustri. Mikill ferðamannastraumur er í sveitarfélaginu í eðlilegu árferði.Magnús Hlynur Hreiðarsson


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.