Fótbolti

Skipti Jóni Degi og fé­lögum út fyrir FCK og Ragnar: „Það er á­stæða fyrir því að hata hann“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Ragnar Sigurðsson á ferðinni í 2-2 jafntefli við Vejle fyrr á leiktíðinni.
Ragnar Sigurðsson á ferðinni í 2-2 jafntefli við Vejle fyrr á leiktíðinni. vísir/getty

Skipti Peter Christiansen frá AGF til FCK draga dilk á eftir sér.

Það dró til tíðinda í danska boltanum er Peter Christiansen, betur þekktur sem PC, ákvað að skipta starfi sínu hjá AGF út fyrir starf sem yfirmaður knattspyrnumála hjá FCK.

Peter mun taka við starfinu hjá FCK í síðasta lagi 1. apríl á næsta ári en hann spilaði með félaginu frá 2000 til 2005. Hann hefur verið yfirmaður knattspyrnumála hjá Árósarliðinu frá árinu 2017.

Hann var meðal annars einn af þeim sem fékk Jón Dag Þorsteinsson til félagsins frá Fulham en hann mun nú starfa sem yfirmaður knattspyrnumála hjá Ragnari Sigurðssyni og félögum í FCK þar sem allt hefur verið í ljósum logum.

Jacob Nielsen, framkvæmdastjóri AGF, segir í samtali við TV3 Sport að það hafi ekki verið mikil gleði á skrifstofunni hjá AGF er fréttirnar komu í hús að „PC“ myndi skipta Árósum út fyrir Kaupmannahöfn.

„Það var leikmaður sem kom inn og hraunaði yfir hann með tárin í augunum því hann hafði yfirgefið liðið. Ég kann að meta það. Mér líkar vel við það að maður sé ekki elskaður á þeim stað sem maður fer frá,“ sagði Jakob og hélt áfram.

„Ég hef sjálfur prufað það í Randers. Það gefur mér góða tilfinningu að maður er hataður því það gefur manni þá tilfinningu að maður hefur gert eitthvað gott. Svo það er ástæða fyrir því að hata PC núna.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×