Fótbolti

Ekkert fær stöðvað Bayern á meðan hörmu­legt gengi Marseil­le heldur á­fram

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Neuer var frábær í liði Bayern í kvöld.
Neuer var frábær í liði Bayern í kvöld. EPA-EFE/Lukas Barth-Tuttas

Það var nóg um að vera í Meistaradeild Evrópu í kvöld. Meistarar Bayern halda áfram á sigurbraut á meðan Marseille tapar og tapar í keppni þeirra bestu.

Meistarar Bayern München tóku á móti Red Bull Salzburg frá Austurríki í kvöld. Þrátt fyrir að vinna 3-1 sigur þá var sigur Bæjara ekki jafn öruggur og lokatölurnar gefa til kynna.

Það stefndi í markalausan fyrri hálfleik en markavélin Robert Lewandowski kom Bayern yfir undir lok fyrri hálfleiks og sá til þess að þeir voru 1-0 yfir í hálfleik. Síðari hálfleikur var aðeins sjö mínútna gamall þegar Maximilian Wöber varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark og staðan 2-0 fyrir Bayern.

Á 66. mínútu fékk Marc Roca sitt annað gula spjald í liði Bayern og þar með rautt. Leroy Sané bætti samt sem áður við þriðja marki heimamanna aðeins tveimur mínútum síðar. Á 73. mínútu minnkaði Mergim Berisha muninn fyrir gestina og í kjölfarið fengu þeir nokkur góð færi.

Alltaf sá hinn magnaði Manuel Neuer við þeim og fór það svo að Bayern hélt út. Lokatölur 3-1 og Bayern með fullt hús stiga að loknum fjórum leikjum. Í hinum leik A-riðils gerðu Atlético Madrid og Lokomotiv Moskva markalaust jafntefli.

Bayern komið áfram í 16-liða úrslit og búnir að tryggja sér toppsæti riðilsins þegar tvær umferðir eru eftir. Atl. Madrid er með fimm stig, Lokomotiv er með þrjú og Salzburg rekur lestina með eitt.

Í C-riðli mættust Marseille og Porto í Frakklandi. Zaidu Sanusi kom gestunum yfir á 39. mínútu og var staðan 1-0 Porto í vil í hálfleik. Marko Grujic fékk sitt annað gula spjald í liði gestanna á 67. mínútu og Marseille taldi sig eiga möguleika á að fá eitthvað úr leiknum.

Aðeins þremur mínútum síðar nældi Leonardo Balerdi í sitt annað gula spjald í liði heimamanna er hann braut af sér innan vítateigs. Sérgio Oliveira fór á punktinn og skoraði af öryggi.

Staðan orðin 2-0 Porto í vil og reyndust það lokatölur.

Porto er nú í 2. sæti C-riðils, þremur stigum á eftir Manchester City sem trónir á toppnum með 12 stig. Marseille er hins vegar á botninum án stiga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×