Fótbolti

Fernandes fórnaði möguleikanum á þrennu og leyfði Rashford að taka víti

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Bruno Fernandes og Marcus Rashford fagna.
Bruno Fernandes og Marcus Rashford fagna. getty/Ash Donelon

Athygli vakti að Bruno Fernandes leyfði Marcus Rashford að taka vítaspyrnuna sem Manchester United fékk í fyrri hálfleik í 4-1 sigrinum á Istanbul Basaksehir í Meistaradeild Evrópu í gær.

Staðan var þá 2-0 og Fernandes búinn að skora bæði mörk United. Hann átti möguleika á að skora sitt þriðja mark úr vítinu en leyfði Rashford þess í stað að taka það. Enski landsliðsmaðurinn skoraði af öryggi úr vítinu og kom United í 3-0.

„Auðvitað vilja allir skora þrennu en eftir síðasta leik í ensku úrvalsdeildinni sagði ég Rashford að hann mætti taka næsta víti,“ sagði Fernandes eftir leikinn á Old Trafford í gær.

„Hann er líka einn af markahæstu leikmönnum í Meistaradeildinni svo það er mikilvægt fyrir hann fá sjálfstraust. Það skiptir ekki máli hver tekur vítin svo framarlega sem við skorum.“

Fernandes skoraði úr víti í 1-0 sigri United á West Brom á laugardaginn. Sam Johnstone, markvörður West Brom, varði fyrst frá Fernandes en endurtaka þurfti spyrnuna þar sem hann var kominn út af marklínunni. Fernandes skoraði svo úr seinna vítinu.

Rashford hefur skorað fimm mörk í Meistaradeildinni í vetur og er næstmarkahæstur í keppninni á eftir Erling Håland, leikmanni Borussia Dortmund, sem hefur skorað sex mörk.


Meistaradeild Evrópu er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Meistaradeildin er hluti af Stöð 2 Sport Erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×