Fótbolti

Hugarþjálfari Alfons og félaga var herflugmaður og veit ekkert um fótbolta

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Alfons Sampsted í leik Bodø/Glimt og AC Milan í Evrópudeildinni.
Alfons Sampsted í leik Bodø/Glimt og AC Milan í Evrópudeildinni. EPA-EFE/MATTEO BAZZI

Einn af lykilmönnunum í árangri nýkrýndra Noregsmeistara Bodø/Glimt er Bjorn Mannsverk. Hann er fyrrverandi flugmaður í norska hernum og barðist m.a. í Afganistan.

Mannsverk var ráðinn hugarþjálfari Bodø/Glimt fyrir þremur árum og vinnur náið með einstaklingum sem og liðinu í heild sinni.

Alfons Sampsted leikur með Bodø/Glimt og ber Mannsverk afar vel söguna.

„Þetta er frábær maður. Ég kynntist honum bara núna í júlí. Hann tekur að sér nokkra leikmenn í liðinu og spjallar við þá, bæði um eitthvað sem tengist fótbolta og eitthvað sem tengist honum ekki. Hann er sálfræðingur á einn máta en samt ekki,“ sagði Alfons í samtali við Vísi.

„Hann einbeitir sér að því hvað við getum gert til að stilla hausinn þannig að þú munir standa þig betur í leikjum. Þetta snýst mikið um það hvernig við getum haldið einbeitingu í 90 mínútur sem er hans sérgrein því hann var herflugmaður. Ef þú missir einbeitinguna þar ertu í vandræðum. Það eru kannski aðeins minni afleiðingar í fótboltaleik. Hann er með ákveðnar æfingar og pælingar hvernig við getum haldið einbeitingu gegnum heilan fótboltaleik.“

Mannsverk hefur engan bakgrunn í fótbolta, veit lítið um hann og hefur ekkert sérstaklega mikinn áhuga á honum. En hann er samt í lykilhlutverki hjá Bodø/Glimt sem tryggði sér norska meistaratitilinn í fyrsta sinn í fyrradag.

„Hann veit ekkert um fótbolta,“ sagði Alfons um Mannsverk. „Þegar ég kom sagði ég honum að ég væri hægri bakvörður og hann sagðist halda að það væri hægra megin á vellinum en meira vissi hann ekki. Hann hefur bara áhuga á því að vinna með fólki og reyna að þjálfa huga þess.“

Klippa: Alfons um hugarþjálfara Bodø/Glimt

Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.