Innlent

Um þrjú hundruð dómar Landsréttar mögulega í húfi

Kjartan Kjartansson skrifar
Mannréttindadómstóll Evrópu er staðsettur í Strasbourg.
Mannréttindadómstóll Evrópu er staðsettur í Strasbourg. Vísir/EPA

Óvissa er sögð ríkja um afdrif fleiri en þrjú hundruð dóma sem fjórir dómarar við Landsrétt kváðu upp staðfesti yfirdeild Mannréttindadómstóls Evrópu dóm hans frá því í fyrra um að dómararnir hafi verið ranglega skipaðir.

Yfirdeildin á að kveða upp dóm sinn 1. desember. Fréttablaðið segir frá því í morgun að ekki liggi fyrir með hvaða hætti verði farið yfir Landsréttardómana sem málið nær til. Dómararnir fjórir tóku þátt í störfum nýja dómstigsins frá skipun þeirra 1. janúar árið 2018 þar til dómur Mannréttindadómstólsins féll 13. mars í fyrra.

Á meðal málanna eru rúmlega helmingur allra sakamála sem Landsréttur felldi dóm í á tímabilinu, 85 talsins. Sakfellt var í 75 þeirra.

Í fréttinni kemur fram að vegna óvissu um aðfarar- og fullnustuhæfi dómanna gætu einhverjir málsaðilar reynt að skjóta málum til Hæstaréttar til að fara fram á að Landsréttur taki mál aftur fyrir. Áfrýjunarfrestur sé þó liðinn.

Mannréttindadómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að dómaraskipan í Landsrétt hefði brotið gegn mannréttindasáttmála Evrópu hvað varðar rétt einstaklinga til réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi. Sigríður Á. Andersen, þáverandi dómsmálaráðherra, hafði þá skipað fjóra dómara við réttinn þvert á mat hæfnisnefndar. Alþingi samþykkti tillögu hennar um skipan dómaranna í júní árið 2017.

Dómur Mannréttindadómstólsins leiddi á endanum til afsagnar Sigríðar sem ráðherra. Hún situr enn sem þingmaður Sjálfstæðisflokksins.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.