Erlent

Varnar­mála­ráð­herrann fer frá eftir um­deilt sam­komu­lag

Atli Ísleifsson skrifar
Frá mótmælum í armensku höfuðborginni Jerevan.
Frá mótmælum í armensku höfuðborginni Jerevan. Getty

Davit Tonoyan, varnarmálaráðherra Armeníu, hefur sagt af sér embætti eftir að hafa sætt mikilli gagnrýni í kjölfar samkomulags um vopnahlé sem gert var við Asera og með milligöngu rússneskra stjórnvalda.

Frá þessu segir á heimasíðu ríkisstjórnar Armeníu. Þúsundir hafa safnast saman á götum í Armeníu síðustu daga til að mótmæla samkomulaginu og krefjast afsagnar forsætisráðherrans Nikols Pashinian.

Samkvæmt samkomulaginu mun Aserbaídsjan ná stjórn á nokkrum svæðum sem her landsins náði á sitt vald í átökunum í haust. Hafa Armenar á móti samþykkt að hörfa.

Greint var frá því í morgun að aserski herinn hafi haldið inn í héraðið Aghdam í samræmi við ákvæði samningsins. Samkvæmt samkomulaginu munu Aserarhalda inn í Kalbajar í næstu viku og svo Lachin um næstu mánaðarmót.

Pashinian hafði áður sagt að það væri hafi verið gríðarlega erfitt, bæði fyrir sig persónulega og ekki síður þjóð sína, að skrifa undir samkomulagið.

Armenar og Aserar hafa lengi deilt um yfirráð í héraðinu Nagorno Karabakh, sem er að finna innan Aserbaídjsan en Armenar hafa verið það í meirihluta og í raun ráðið ríkjum. Mikil átök blossuðu svo upp í haust þar sem Aserar nutu stuðnings Tyrkja.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×