Fótbolti

Ísak Bergmann á milli Eiðs Smára og Ríkharðs á listanum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ísak Bergmann Jóhannesson eftir fyrsta landsleik sinn fyrir Ísland sem var á Wembey í gær.
Ísak Bergmann Jóhannesson eftir fyrsta landsleik sinn fyrir Ísland sem var á Wembey í gær. Getty/Ian Walton

Ísak Bergmann Jóhannesson varð í gær sjötti yngsti leikmaðurinn sem spilar fyrir íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu.

Ísak Bergmann spilaði sinn fyrsta A-landsleik þegar hann kom inn á sem varamaður fyrir Birki Bjarnason á 88. mínútu leiks Íslands og Englands á Wembley.

Ísak Bergmann er fæddur 23. mars 2003 og var því 17 ára, 7 mánaða og 26 daga gamall þegar hann spilaði sinn fyrsta A-landsleik.

Ísak komst þar með upp í sjötta sæti listans yfir yngstu landsliðsmenn Íslands og er á milli þeirra Eiðs Smára Guðjohnsen og Ríkharðs Jónssonar sem báðir hafa átt markamet íslenska landsliðsins.

Eiður Smári var sautján dögum yngri þegar hann spilaði sinn fyrsta landsleik en Ríkharður var sextán dögum eldri.

Sigurður Jónsson á íslenska metið en hann er sá eini sem hefur spilað A-landsleik fyrir sautján ára afmælið. Sigurður kom inn á sem varamaður á móti Möltu í undankeppni EM á Laugardalsvellinum í júní 1983 þegar hann var aðeins 16 ára og rúmlega átta mánaða gamall.

Það var lengi met yfir yngsta leikmann í undankeppni EM þar til að Norðmaðurinn Martin Ödegaard sló það í oktðober 2014 en hann var þá ekki orðinn sextán ára gamall.

Ísak Bergmann Jóhannesson (17 ára og 240 daga) er aftur á móti næstyngsti leikmaðurinn í sögu Þjóðadeildarinnar en það er aðeins Kýpverjinn Loizos Loizou (17 ára og 52 daga) sem hefur verið yngri. Ísak er aftur á móti sá yngsti sem hefur spilað í A-deildinni.

Yngstu A-landsliðsmenn karla í knattspyrnu frá upphafi:

  • 1. Sigurður Jónsson, 1983 (16 ára, 8 mánaða og 9 daga)
  • 2. Ásgeir Sigurvinsson, 1972 (17 ára, 1 mánaða og 25 daga)
  • 3. Eyleifur Hafsteinsson, 1964 (17 ára, 1 mánaða og 26 daga)
  • 4. Kári Árnason, 1961 (17 ára, 6 mánaða og 22 daga)
  • 5. Eiður Smári Guðjohnsen, 1996 (17 ára, 7 mánaða og 9 daga)
  • 6. Ísak Bergmann Jóhannesson, 2020 (17 ára, 7 mánaða og 26 daga)
  • 7. Ríkharður Jónsson, 1947 (17 ára, 8 mánaða og 12 daga)
  • 8. Jóhann Berg Guðmundsson, 2008 (17 ára, 9 mánaða og 24 daga)
  • 9. Friðrik Friðriksson, 1964 (17 ára, 9 mánaða og 27 daga)
  • 10. Þórir Jónsson, 1970 (17 ára, 10 mánaða og 8 daga)
  • 11. Arnór Guðjohnsen, 1979 (18 ára og 22 daga)

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×