Fótbolti

Fótboltastjarna fann aftur vegabréfið sitt með hjálp samfélagsmiðla

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pervis Estupinan fagnar hér marki með liðsfélaga sínum í landsliði Ekvador, Michael Estrada.
Pervis Estupinan fagnar hér marki með liðsfélaga sínum í landsliði Ekvador, Michael Estrada. Getty/Rodrigo Buendia

Skemmtilegur landsleikjagluggi breyttist snögglega fyrir landsliðsbakvörð Ekvador sem hafði skorað sitt fyrsta mark fyrir landsliðið á dögunum í stórsigri í undankeppni HM.

Ekvadorinn Pervis Estupinan lenti nefnilega í vandræðum sem sum okkar þekkja aðeins of vel. Hann týndi vegabréfinu sínu.

Estupinan var þar með kominn í vandræði því hann komst ekki aftur í vinnuna þar sem hann spilar með spænska liðinu Villarreal. Það leit út fyrir að hann myndi missa af leiknum á móti Real Madrid um helgina.

Pervis Estupinan var staddur í landsliðsverkefni með Ekvador í heimalandinu og hjálpaði landsliðinu sínu meðal annars að vinna 6-1 sigur á Kólumbíu í undankeppni HM 2022 þar sem Estupinan skoraði eitt markanna.

Þegar Pervis Estupinan var á leið aftur til Spánar þá týndi hann farangrinum sínum og þar á meðal vegabréfinu.

Pervis dó samt ekki ráðalaus og nýtti sér samfélagsmiðla til að finna aftur töskurnar sínar. Hann fékk líka hjálp frá knattspyrnusambandi Ekvador.

„Ég vil kalla eftir hjálp við að finna þrjár svartar töskur og vegabréf. Ég týndi þeim í Carapungo (Quito),“ skrifaði Pervis Estupinan á Twitter.

„Ég myndi meta það með öllu mínu hjarta ef þú gætir fundið þær fyrir mig,“ skrifaði Pervis.

Skilaboðum hans var endurtíst næstum því fimm þúsund sinnum. Leitin bar árangur.

„Takk fyrir hjálpina. Mér tókst að finna mikilvægustu töskuna og vegabréfið mitt. Guð blessi ykkur,“ skrifaði Pervis Estupinan á Twitter.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×