Fótbolti

Hægt að sjá í beinni hvort íslensku strákarnir komist á EM

Sindri Sverrisson skrifar
Sveinn Aron Guðjohnsen er ásamt fleirum úr U21-landsliðinu mættur til Englands vegna A-landsleiksins á Wembley. Þeir þurfa að treysta á Ítalíu í dag til að komast á EM U21.
Sveinn Aron Guðjohnsen er ásamt fleirum úr U21-landsliðinu mættur til Englands vegna A-landsleiksins á Wembley. Þeir þurfa að treysta á Ítalíu í dag til að komast á EM U21. vísir/vilhelm

Strákarnir í U21-landsliði Íslands í fótbolta gætu fagnað sæti á EM í dag en örlög þeirra eru í höndum Ítala sem taka á móti Svíum. Leikurinn er í beinni útsendingu á Rai 2.

Hópur leikmanna úr U21-landsliði Íslands er mættur til Englands til að taka þátt í A-landsleiknum við England í Þjóðadeildinni í kvöld. Ljóst verður skömmu fyrir þann leik hvort Ísland spilar í lokakeppni EM U21 á næsta ári.

Eftir að úrslit gærdagsins reyndust riðli Íslands í hag er ljóst að leikur Ítalíu og Svíþjóðar ræður því hvort það verður Ísland eða Svíþjóð sem fer á EM í Ungverjalandi og Slóveníu á næsta ári. 

Ef Svíþjóð vinnur kemst liðið upp fyrir Ísland í 2. sæti A-riðils, á betri innbyrðis úrslitum. Jafntefli eða sigur Ítalíu dugar Íslandi. Ítalía hefur þegar tryggt sér efsta sæti riðilsins.

Ísland hefur aðeins einu sinni komist í lokakeppni EM U21-landsliða en það gerði „gullkynslóðin“ árið 2011, áður en hún fór svo með A-landsliðið ótroðnar slóðir.

Bein útsending á Fjölvarpinu

Leikur Ítalíu og Svíþjóðar hefst kl. 16.30 að íslenskum tíma. Eins og fyrr segir er hann í beinni útsendingu á ítölsku stöðinni Rai 2. Hún fylgir með áskrift að Risapakka Stöðvar 2 og Fjölvarpi L.

Sænska liðið þarf að spjara sig án framherjans og lykilmannsins Viktors Gyökeres, leikmanns Brighton sem er að láni hjá Swansea, eftir að hann greindist með kórónuveiruna. Þá er Eric Kahl, varnarmaður úr AIK, meiddur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×