Fótbolti

Óttast ekki að missa Messi: Fundu ekki fyrir því þegar Ronaldo og Neymar fóru

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leo Messi er mögulega á förum frá Barcelona næsta sumar.
Leo Messi er mögulega á förum frá Barcelona næsta sumar. Getty/Urbanandsport

Forseti spænsku deildarinnar óttast ekki áhrifin af því ef Lionel Messi hættir hjá Barcelona í sumar og færir sig yfir í ensku úrvalsdeildina. Hann segir La Liga tilbúna fyrir að missa Messi.

Javier Tebas, forseti La Liga, ræddi mögulega brottför Lionel Messi frá Barcelona og gagnrýndi um leið Manchester City, félagið sem hann heldur sjálfur að Lionel Messi semji við.

Tebas vill að Lionel Messi haldi áfram að spila á Spáni en hefur ekki áhyggjur af því að það komi mikið niður á spænsku deildinni á missa hann.

„Við vildum auðvitað helst að Messi yrði áfram í La Liga en bæði Ronaldo og Neymar fóru og við höfum ekki fundið fyrir neinni breytingu,“ sagði Javier Tebas í viðtali við breska ríkisútvarpið.

Lionel Messi er 33 ára gamall og rennur út á samningi hjá Barcelona í sumar. Hann fer því á frjálsri sölu ef hann ákveður að yfirgefa félagið sem hann hefur spilað með síðan að hann var þrettán ára gamall.

Það er samt lítill vafi á því að það verður ekki sami alþjóðlegi áhugi á spænska boltanum ef hvorki Cristiano Ronaldo né Lionel Messi spila í deildinni.

Javier Tebas hélt áfram að skjóta á enska úrvalsdeildarfélagið Manchester City, liðið sem er að gera allt til þess að fá Lionel Messi til sín.

„Það lítur út fyrir að eina félagið í ensku úrvalsdeildinni sem talar um að fá Messi til sín sé Manchester City, félag sem fylgir ekki reglunum. Ég er ekki sá eini sem segir það,“ sagði Tebas.

„Ég hef ekki svo miklar áhyggjur af þeim. Ég hef gagnrýnt starfshætti þeirra svo oft. Það skiptir ekki máli þótt þeir geri það einu sinni einn. Hvorki kórónuveirufaraldurinn, heimsfaraldrar eða eitthvað annað hefur áhrif á City af því að félagið er fjármagnað á annan hátt en við hin og það er ómögulegt að keppa við það,“ sagði Tebas.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×