Fótbolti

Suárez með veiruna og missir af leiknum gegn Barcelona

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Luis Suárez fagnar marki sínu fyrir Úrúgvæ gegn Kólumbíu á föstudaginn. Þetta var hans 63. landsliðsmark.
Luis Suárez fagnar marki sínu fyrir Úrúgvæ gegn Kólumbíu á föstudaginn. Þetta var hans 63. landsliðsmark. getty/Gabriel Aponte

Luis Suárez, framherji Atlético Madrid og úrúgvæska landsliðsins, er með kórónuveiruna og missir því af leiknum gegn sínum gömlu félögum í Barcelona um helgina.

Suárez skoraði í 0-3 sigri Úrúgvæ á Kólumbíu í undankeppni HM á föstudaginn. Hann hefur nú greinst með kórónuveiruna líkt og markvörðurinn Rodrigo Munoz. Þeir missa af leiknum gegn Brasilíu í dag. Suárez og Munoz eru sagðir einkennalausir og við ágæta heilsu. Þeir eru nú í einangrun.

Ljóst er að Suárez missir af leik Atlético og Barcelona í spænsku úrvalsdeildinni á laugardaginn. Suárez fór frá Barcelona í haust eftir sex ár hjá félaginu. Hann átti eitt ár eftir af samningi sínum við Barcelona en nýr knattspyrnustjóri liðsins, Ronald Koeman, tjáði Úrúgvæanum að hann hefði ekki not fyrir hann.

Suárez var í kjölfarið seldur til Atlético og hann hefur farið vel af stað með Madrídarliðinu. Hann hefur skorað fimm mörk í fyrstu átta leikjum sínum með Atlético sem er í 3. sæti spænsku úrvalsdeildarinnar með sautján stig, sex stigum á undan Barcelona sem er í áttunda sætinu.

Suárez lék 283 leiki fyrir Barcelona og skorað 198 mörk. Hann er þriðji markahæsti leikmaður í sögu félagsins. Suárez varð fjórum sinnum Spánarmeistari með Barcelona, fjórum sinnum bikarmeistari og einu sinni Evrópumeistari.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.