Fótbolti

Carlos Tevez grætur í hálfleik á leikjum sínum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Carlos Tevez í leik með liði Boca Juniors.
Carlos Tevez í leik með liði Boca Juniors. Getty/Juan Ignacio Roncoroni

Carlos Tevez, fyrrum Englandsmeistari með bæði Manchester United og Manchester City, á erfitt þessa dagana á meðan heilsa föður hans hrakar.

Carlos Tevez er nú leikmaður og fyrirliði Boca Juniors liðins í Argentínu en á sama tíma er faðir hans að glíma við eftirmála þess að hafa fengið kórónuveiruna.

Faðir hans Raimundo Tevez var í 45 daga á gjörgæslu á einkaspítala í Buenos Aires eftir að hafa fengið veiruna en var síðan útskrifaður 4. september síðastliðinn. Raimundo Tevez er með sykursýki og hann var kominn aftur á sjúkrahúsið fyrir nokkrum dögum eftir að heilsu hans hrakaði.

„Þetta er mjög erfitt,“ sagði Carlos Tevez við ESPN í Argentínu eftir að leik liðsins á móti Talleres á sunnudaginn. Boca Juniors tapaði 1-0.

„Ég fer í gegnum allan tilfinningaskalann. Stundum líður mér vel en á öðrum tímum þá græt ég í hálfleik. Ég get ekki útskýrt það,“ sagði Tevez.

„Þetta eru erfiðir tímar. Ég heimsæki föður minn en svo þarf ég að herða mig upp og spila fótbolta,“ sagði Tevez.

„Það mikilvægasta er að ég er sterkur þökk sé fólkinu hjá Boca og fjölskyldu minnar. Þau hjálpa mér að brotna ekki saman og að halda áfram baráttunni. Ég er standandi, alveg eins og fjölskyldan mín, og við verðum að halda áfram,“ sagði Carlos Tevez.

Raimundo Tevez er ekki líffræðilegur faðir hans því sá dó áður en Carlos fæddist. Carlos Tevez var alinn upp af Raimundo og eiginkonu hans Adriönu Martinez sem er frænka Carlosar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×