Fótbolti

Ísland þriðja flokks fyrir undankeppni HM í Katar

Sindri Sverrisson skrifar
Ísland var í 2. styrkleikaflokki fyrir undankeppni HM í Rússlandi en hefur nú dregist niður í 3. flokk.
Ísland var í 2. styrkleikaflokki fyrir undankeppni HM í Rússlandi en hefur nú dregist niður í 3. flokk. EPA-EFE/Tibor Illyes

Eftir töpin tvö gegn Ungverjalandi og Danmörku er orðið ljóst að Ísland verður í 3. styrkleikaflokki þegar dregið verður til undankeppni HM í fótbolta þann 7. desember.

Undankeppni HM í Katar er öll leikin á næsta ári. Fyrstu þrír leikirnir eru í mars og verða jafnframt fyrstu mótsleikir Íslands undir stjórn nýs landsliðsþjálfara, eftir að Erik Hamrén ákvað að láta gott heita. Undankeppninni lýkur í nóvember, eftir nákvæmlega eitt ár.

Fyrir HM-dráttinn er þjóðum Evrópu skipt í sex styrkleikaflokka. Farið er eftir stöðu þjóða á næsta heimslista. Ísland átti möguleika á að komast í hóp 20 efstu þjóða Evrópu á heimslista, með góðum úrslitum gegn Ungverjum, Dönum og svo Englendingum á miðvikudag, en nú er ljóst með útreikningum að liðið verður í 3. styrkleikaflokki.

Einnig er ljóst hvaða tíu lið verða í efsta styrkleikaflokki, og níu þjóðir eru öruggar um sæti í 2. styrkleikaflokki (Rússland, Rúmenía eða Írland fær síðasta lausa sætið). Belgía, England og Danmörk, mótherjar Íslands í Þjóðadeildinni í ár, eru öll í efsta flokknum.

Ísland fær sem sagt eina þjóð úr hvorum þessara flokka í sinn riðil í undankeppni HM:

Flokkur 1: Belgía, Frakkland, England, Portúgal, Spánn, Króatía, Þýskaland, Danmörk, Ítalía, Holland.

Flokkur 2: Sviss, Pólland, Svíþjóð, Wales, Úkraína, Austurríki, Tyrkland, Slóvakía, Serbía, Rússland/Rúmenía/Írland.

Leikið verður í 5 og 6 liða riðlum í undankeppni HM, svo Ísland fengi 2-3 andstæðinga í viðbót í sinn riðil, úr lægri styrkleikaflokkum.

Efsta lið hvers riðils kemst á HM í Katar, líkt og þegar Ísland komst á HM í Rússlandi. Næstefsta lið hvers riðils kemst í umspil, líkt og þegar Ísland komst í umspil gegn Króatíu fyrir HM í Brasilíu.


Tengdar fréttir

Sigur á Ungverjum kæmi Íslandi líka nær HM í Katar

Þó að leikur Íslands og Ungverjalands annað kvöld snúist um það hvort liðanna kemst í lokakeppni EM þá felur sigur líka í sér aukna möguleika á að komast á HM í Katar eftir tvö ár.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.