Fótbolti

Sveinn Aron bætti árangur pabba síns

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sveinn Aron Guðjohnsen og Eiður Smári Guðjohnsen í leik með íslenska landsliðinu.
Sveinn Aron Guðjohnsen og Eiður Smári Guðjohnsen í leik með íslenska landsliðinu. Vísir/Samsett/Vilhelm og Getty

Sveinn Aron Guðjohnsen skoraði í gær sitt sjötta mark fyrir íslenska 21 árs landsliðið og komst þar með upp fyrir Eiðs Smára Guðjohnsen.

Sveinn Aron Guðjohnsen hefur heldur betur verið á skotskónum með íslenska 21 árs landsliðinu í þessari undankeppni EM en hann skoraði sitt fimmta mark í undankeppninni í 2-1 sigri á Írum.

Sveinn Aron Guðjohnsen skoraði fyrra markið og kom Íslandi í 1-0 en Valdimar Þór Ingimundarson skoraði síðan sigurmarkið á síðustu stundu eftir að Írarnir höfðu jafnað metin.

Íslensku strákarnir þurftu að vinna leikinn til þess að eiga möguleika á því að komast í lokakeppnina.

Frammistaða Sveins Arons hefur vakið athygli A-landsliðsþjálfarans því strákurinn var kallaður inn í íslenska A-landsliðið fyrir leikinn á móti Englandi á Wembley á miðvikudagskvöldið.

Sveinn Aron er nú orðinn markahæsti Guðjohnsen með íslenska 21 árs landsliðinu því hann komst upp fyrir pabba sinn í gær.

Eiður Smári Guðjohnsen skoraði á sínum tíma fimm mörk í ellefu leikjum fyrir íslenska 21 árs landsliðið. Sveinn Aron er kominn með sex mörk fyrir U21 en reyndar í fjórum fleiri leikjum.

Eiður Smári hefur enn forskotið í markaskori fyrir öll unglingalandslið því hann skoraði á sínum tíma 13 mörk fyrir íslensku yngri landsliðin. Eiður Smári er líka ennþá markahæsti leikmaður A-landsliðsins.

Sveinn Aron er kominn með tíu mörk fyrir íslensku yngri landsliðin þar af níu þeirra fyrir 19 ára og 21 árs landsliðið.

Mörk fyrir 21 árs landsliðið

  • 6 - Sveinn Aron Guðjohnsen
  • 5 - Eiður Smári Guðjohnsen

Mörk fyrir öll yngri landsliðið

  • 13 - Eiður Smári Guðjohnsen
  • 10 - Sveinn Aron Guðjohnsen

Markahæstir hjá 21 árs landsliðinu í riðlakeppni EM 2021:

  • 5 - Sveinn Aron Guðjohnsen
  • 3 - Willum Þór Willumsson
  • 2 - Ísak Óli Ólafsson
  • 2 - Jón Dagur Þorsteinsson
  • 1 - Ari Leifsson
  • 1 - Brynjólfur Andersen Willumsson
  • 1 - Jónatan Ingi Jónsson
  • 1 - Valdimar Þór Ingimundarson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×