Fótbolti

Hamrén: Viðar hlustaði á mig

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Erik Hamrén á hliðarlínunni á Parken í kvöld.
Erik Hamrén á hliðarlínunni á Parken í kvöld. EPA-EFE/Liselotte

Þrátt fyrir svekkjandi tap fyrir Dönum, 2-1, var Erik Hamrén ánægður með frammistöðu Íslendinga í leiknum á Parken í kvöld.

„Ég er stoltur af frammistöðunni, sérstaklega eftir að hafa lent undir snemma leiks vegna ódýrrar vítaspyrnu. Við lögðum hart að okkur og þurftum að gera það því Danir voru miklu meira með boltann,“ sagði Hamrén eftir leik. Hann segist hafa breytt áherslum íslenska liðsins aðeins í hálfleik.

„Við vildum vera þéttari í pressunni. Framan af vorum við of langt frá þeim. Vorum þéttari í seinni hálfleik og Danir notuðu fleiri langar sendingar og okkur gekk betur að vinna boltann.“

Hamrén gerði átta breytingar á byrjunarliðinu frá tapinu sára fyrir Ungverjalandi á fimmtudaginn og breytti líka um leikkerfi.

„Við vorum með átta nýja leikmenn því við þurftum þess. Ég er ánægður með alla, þeir sýndu að þeir vilja spila. Við reyndum að spila í fyrri hálfleik en Danir voru góðir,“ sagði Hamrén sem hrósaði Viðari Erni Kjartanssyni sem skoraði mark Íslands.

„Ég sagði við Viðar að leggja hart að sér, skora og hann hlýddi mér,“ sagði Svíinn kankvís.

Þetta var næstsíðasti leikur Hamréns með íslenska landsliðið. Hann viðurkennir að það hafi verið erfitt að rífa menn upp eftir tapið í Búdapest.

„Þetta eru frábærir strákar að vinna með. Þeir eru með ótrúlegt hugarfar. Þetta voru erfiðir tveir dagar. Við vorum mjög niðurdregnir,“ sagði Hamrén sem kveður íslenska landsliðið gegn Englandi á miðvikudaginn.

„Þú gætir hætt á verri velli. Wembley er magnaður leikvangur. Vonandi náum við aftur orku. Við hefðum átt að fá stig gegn Englandi og aftur í kvöld.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×