Innlent

„Þú vælir eins og stunginn grís“

Sylvía Hall skrifar
Kolbeinn Proppé og Brynjar Níelsson voru ekki alveg á sömu blaðsíðu hvað sóttvarnaaðgerðir varðar.
Kolbeinn Proppé og Brynjar Níelsson voru ekki alveg á sömu blaðsíðu hvað sóttvarnaaðgerðir varðar. Vísir/vilhelm

Fjörlegar umræður sköpuðust um sóttvarnaaðgerðir á Sprengisandi í dag þegar Brynjar Níelsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Kolbeinn Óttarsson Proppé þingmaður Vinstri grænna og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar mættu í viðtal. Þó voru þau sammála um að umræða um aðgerðir stjórnvalda væri nauðsynleg.

Brynjar hefur verið framarlega í umræðunni um sóttvarnaaðgerðir undanfarna daga og vikur og ekki verið allskostar sáttur við þær. Sagði hann meðal annars í skoðanagrein hér á Vísi að áherslan hefði verið á daglegan hræðsluáróður, dreifingu á villandi tölfræði og tilraunum til að „stýra öllu, stóru og smáu, í samfélaginu“ og lýsti því yfir að meðvirkni sinni væri lokið.

„Þú verður að hætta þessu fórnarlambshlutverki, það fer þér ekki vel. Þú hefur þvílíkt platform til að segja hvað sem þér sýnist og þú vælir eins og stunginn grís,“ sagði Kolbeinn og uppskar mikinn hlátur viðstaddra.

„Það er nauðsynlegt,“ sagði Brynjar og hló.

Aðgerðirnar „ómarkvissar og klunnalegar“

Brynjar svaraði fyrir skrif sín og sagði það vera nauðsynlegt fyrir vísindin og þekkinguna að gagnrýna og efast. Hann sé einungis að leyfa sér að efast um aðgerðirnar, enda finnist honum þær oft hafa verið ómarkvissar og klunnalegar. „Ég velti fyrir mér hvort árangurinn hafi ekki heldur verið eins og við var að búast við í þeim.“

Hann segir bæði lagalegan og vísindalegan grundvöll aðgerðanna umdeilanlegan og því bæri honum skylda til að benda á þessi sjónarmið. Meira væri hann ekki að gera.

„Það er ekki þar með sagt að við hlustum ekki á vísindin, við erum alltaf að afla okkur upplýsinga og þekkingar. Við tökum auðvitað ákvarðanir á grundvelli þeirra,“ sagði Brynjar og bætti við að samfélagi yrði ekki stýrt á þann hátt. Það þyrfti að skoða heildarmyndina.

„Við þurfum auðvitað að hafa allar upplýsingar og staðreyndir fyrir framan okkur. Þetta er bara gagnrýni á það að ef einhver vísindamaður eða fræðimaður segir eitthvað, þá er stjórnmálamaðurinn úti og við eigum bara að fylgja því.“

Óviss hvort Brynjar skilji framkvæmdina

„Ég skil eiginlega kollega minn ekki, og það er ekkert nýtt. Það gerist nánast á hverjum degi. Óvenju slæmt núna reyndar,“ sagði Kolbeinn, samflokksmaður Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra, þegar Brynjar hafði lokið máli sínu.

„Mér finnst eins og hann átti sig ekki alveg á því hvernig kaupin gerast á eyrinni: Sóttvarnalæknir leggur eitthvað til, síðan er það pólitísk ákvörðun hvort eigi að fara eftir því eða ekki.“

Kolbeinn benti á að stjórnmálamennirnir bæru ábyrgð á ákvörðununum. Þannig hefði það verið allt frá fyrsta degi. Það væri því rangt af hálfu Brynjars að segja sóttvarnayfirvöld stýra landinu því þegar allt kæmi til alls væri þetta á endanum ákvörðun heilbrigðisráðherra.

„Framan af vorum við öll meira eða minna gríðarlega ánægð með þá ákvörðun. Við börðum okkur dálitið á brjóst hér að Ísland væri heppið að eiga stjórnmálamenn sem færu eftir tillögum sóttvarnayfirvalda, öfugt við til dæmis Bandaríkin og þá nefndu menn oft Bretland í þessari umræðu í vor. Það breytir engu um það að hver einasta ákvörðun sem hefur verið tekin er ákvörðun stjórnmálamanna“

„Ertu þá ekki bara ánægður?“ 

Kolbeinn ítrekaði að það væri í höndum stjórnmálamannanna að taka ákvarðanir. Það væri þó ekkert óeðlilegt að þeir myndu fá tillögur frá sérfræðingum í þeim efnum og færu eftir þeim. Fjölmörg dæmi um slíkt væri innan stjórnsýslunnar, til að mynda varðandi við úthlutun kvóta.

„Ég er bara að tala um vísindin. Þú ert að blanda einhverju ólíku saman,“ sagði Brynjar þá. „Ég er bara að segja að vísindin eru eitt, samfélagið er ekki vísindaleg úrlausn en við notum auðvitað þekkingu til þess að taka bestu ákvarðanirnar. Það erum við sem tökum ákvarðanirnar, ekki Þórólfur eða Alma.“

„Alveg eins og hefur verið frá fyrsta degi,“ sagði Kolbeinn þá.

„Ég hef aldrei sagt annað heldur,“ svaraði Brynjar og Kolbeinn spurði: „Ertu þá ekki bara ánægður?

„Jújú, ég er bara ekkert ánægður með ákvarðanirnar allar.“

Þorgerður sagði umræðurnar lýsandi fyrir þær sem hafa átt sér stað á þingi.Vísir/Vilhelm

Lítið frumkvæði frá þeim sem efast mest 

Þorgerður Katrín fékk loks orðið og sagði orðaskipti Brynjars og Kolbeins vera einkennandi fyrir umræðurnar á þinginu undanfarna daga. Deilurnar virtust mestar milli stjórnarliða en ekki á meðal stjórnarandstöðunnar.

„Það er allt að því að við í stjórnarandstöðunni getum hallað okkur aftur, stjórnarflokkarnir eru svolítið að kýta og karpa,“ sagði Þorgerður. Hún bætti þó við að hún væri sammála með Brynjari varðandi mikilvægi þess að ræða aðgerðirnar og sagði Kolbein vera á sama máli.

Hún benti á að Viðreisn hefði kallað eftir umræðu um sóttvarnaaðgerðir á þinginu og þær hafi farið fram í síðustu viku. „Ég saknaði þess kannski að þetta frumkvæði hefði komið frá þeim sem voru hvað mestir í efasemdunum útaf þessu.“

Að hennar mæti væri ekki einungis eðlilegt að þingmenn ræddu hvað mætti betur fara, heldur væri það jafnframt skylda þeirra.

„Eftir stendur að við getum haft ákveðna skoðanir og það er ekki óeðlilegt, við eigum að kalla þær fram. Við erum með skoðanir á því til dæmis hvort að það sé rétt að hleypa fólki í það að skoða kreditkortafærslur og svo framvegis. Þetta eru eðlilegar spurningar sem við lýðræðislega kjörnir þingmenn eigum að setja fram.“


Tengdar fréttir

„Menn hljóta að sjá hversu al­var­legt á­stand þetta er“

Ólafur Þór Gunnarsson, öldrunarlæknir og þingmaður Vinstri grænna, telur að fyrsta markmið stjórnvalda í kórónuveirufaraldrinum eigi að vera að vernda líf og heilsu fólks. Hann telur augljóst hversu alvarleg staða er uppi í heilbrigðiskerfinu.

Alræði

Brynjar Níelsson fjallar um sóttvarnir og telur okkur sem þjóð hafa villst verulega af leið í baráttunni við veiruna; meðalið er að drepa sjúklinginn.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.