Fótbolti

Aron Einar: Svekkelsi en markar engin endalok

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Aron Einar Gunnarsson fór meiddur af velli þegar skammt var til leiksloka, en þá var Ísland 1-0 yfir.
Aron Einar Gunnarsson fór meiddur af velli þegar skammt var til leiksloka, en þá var Ísland 1-0 yfir. Getty/Laszlo Szirtesi

Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði íslenska landsliðsins, var að vonum svekktur eftir tapið fyrir Ungverjalandi, 2-1, í umspili um sæti á EM í kvöld.

„Þetta er svekkelsi en markar engin endalok. Það er stutt í næstu undankeppni. Að vera búinn að vinna jafn hart að einhverju markmiði og ná því ekki er sárt,“ sagði Aron Einar eftir leik.

„Að vera yfir á 88. mínútu og geta ekki klárað það, við getum sjálfum okkur um kennt. Við duttum kannski of aftarlega en okkur leið vel að vera með þá fyrir framan okkur. Það var heppnisstimpill yfir fyrra markinu þeirra. Við fengum færi til að klára þetta. Maður er bara svekktur fyrir hönd allra í liðinu og allra sem að því standa. Við megum vera svekktir í kvöld en þurfum svo að rífa okkur upp á rassgatinu og einbeita okkur að næstu undankeppni.“

Aron Einar viðurkennir að kannski hafi verið orðið lítið á tankinum hjá íslensku leikmönnunum undir lok leiks.

„Já, vissulega. Við fengum samt ferskar lappir inn á. Nokkrar hreinsanir hefðu mátt fara betur og við hefðum kannski átt að færa okkur framarlega. En mér fannst við vera hættulegir og fengum færi til að klára þetta endnalega og því fór sem fór,“ sagði Aron Einar sem lék sinn nítugasta landsleik í kvöld.

Hann segir að andrúmsloftið í búningsklefanum eftir leikinn hafi verið þungt.

„Menn eru niðurlútir og horfa fyrst og fremst á sjálfa sig. Þetta svipar til þess eftir leikinn gegn Króatíu í umspilinu fyrir HM 2014. Við getum verið svekktir með okkur sjálfa í kvöld,“ sagði Aron Einar að endingu.

Klippa: Viðtal við Aron Einar

Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.