Einn einstaklingur lést í gær vegna Covid-19 á hjúkrunarheimilinu Sólvöllum á Eyrarbakka. Þetta kom fram í máli Þórólfs Guðnasonar, sóttvarnalæknis, á upplýsingafundi almannavarna og landlæknis í dag.
Um er að ræða fyrsta andlátið af völdum Covid-19 á Sólvöllum. Smit greindist þar í október í kjölfar þess að hópsýking kom upp á Landakoti en einn sjúklingur þaðan hafði flutt á Sólvelli fyrr í mánuðinum. Var hann á meðal þeirra sem greindust með veiruna á hjúkrunarheimilinu.
25 hafa nú látist hér á landi vegna Covid-19 síðan faraldurinn hófst í lok febrúar. Tíu manns létust í fyrri bylgju faraldursins og fimmtán manns hafa nú látist í þeirri bylgju sem nú gengur yfir.
Fréttin hefur verið uppfærð.