Fótbolti

Þjálfaralaust lið Dana vann þjálfaralaust lið Svía

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Jonas Wind skoraði fyrra mark Danmerkur í kvöld.
Jonas Wind skoraði fyrra mark Danmerkur í kvöld. Lars Ronbog/Getty Images

Danmörk og Svíþjóð mættust í æfingaleik í knattspyrnu í kvöld á Parken í Danmörku. Fór það svo að Danir unnu 2-0 sigur þrátt fyrir að vera án þjálfara síns og átta leikmanna sem áttu að vera í leikmannahópnum sökum kórónuveirunnar.

Eftir að Robert Skov greindist með kórónuveiruna þá var ákveðið að þjálfari liðsins, Kasper Hjulmand, og aðstoðarþjálfarinn Morten Wieghorst færu í einangrun sem og átta leikmenn landsliðsins.

Það eru þeir Frederik Rønnow, Yussuf Poulsen, Rasmus Falk Jensen, Pione Sisto, Anders Dreyer, Erik Sviatchenko, Alexander Scholz og Martin Braithwaite.

Raunar vantaði fjölda leikmanna í bæði lið. Engir leikmenn Dana sem spila á Englandi fá að taka þátt í landsliðsverkefinu vegna kórónuveirusmita sem komu upp í minkabúum í Danmörku. Fjölda leikmanna vantaði í sænska liðið og þá var Janne Andersson, þjálfari liðsins, einnig fjarverandi í kvöld. Líkt og Hjulmand greindist hann með kórónuveiruna.

Eftir markalausan hálfleik gerði danska liðið þrjár breytingar og tók í raun alla sína bestu menn af velli. Þeir Christian Eriksen, Kasper Dolberg og Thomas Delaney fóru allir af velli, eftir það tóku Danir öll völd.

Jonas Wind, samherji Ragnars Sigurðssonar hjá FC Kaupmannahöfn, skoraði eftir rétt rúman klukkutíma leik og Alexander Bahr tryggði sigur Dana með öðru marki liðsins á 74. mínútu leiksins.

Lokatölur 2-0 og Danir því með montréttinn að sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×