Fótbolti

Þjálfari Ungverja með kórónuveiruna og má ekki þjálfa á móti Íslandi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Marco Rossi hefur þjálfað ungverska landsliðið frá 2018.
Marco Rossi hefur þjálfað ungverska landsliðið frá 2018. EPA-EFE/VASSIL DONEV

Þjálfari ungverska karlalandsliðsins í knattspyrnu getur ekki stýrt landsliði sínu á móti Íslandi í Búdapest annað kvöld eftir að hafa fengið jákvæða niðurstöðu úr kórónuveiruprófi.

Ítalinn Marco Rossi þjálfar ungverska landsliði og hann hefur verið að fara í smitpróf alla þessa viku eins og aðrir í ungverska hópnum.

Nýjasta kórónuveiruprófið hans greindist jákvætt og hann er því kominn í einangrun og má ekki stýra ungverska landsliðinu á morgun. Leikurinn er hreinn úrslitaleikur um EM sæti.

Samfélagsmiðlar ungverska knattspyrnusambandsins greina frá því að Rossi hafi verið sendur í einangrun um leið og hann greindist með veiruna. Hér fyrir ofan má sjá færslu sambandsins á Twitter.

Blaðamannafundur Ungverja átti að vera klukkan ellefu í dag en eftir þessar fréttir var fundinum frestað til sjö í kvöld. Ekki er enn vitað hvort smit Marco Rossi hafi einhverjar afleiðingar fyrir fleiri innan ungversku búbblunnar eða hvort að smitið hafi áhrif á leik Íslands og Ungverjalands annað kvöld.

Giovanni Costantino, nánasti aðstoðarmaður Marco Rossi úr þjálfarateymi Ungverja, hefur einnig fengið kórónuveiruna og hefur af þeim sökum misst af undirbúningi liðsins fyrir leikinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×