Innlent

Telur ó­skyn­sam­legt að fara ekki að til­mælum sótt­varna­læknis

Birgir Olgeirsson skrifar

Forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar segir óskynsamlegt af ríkisstjórninni að fara ekki eftir tilmælum Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis um að gera tvöfalda sýnatöku á landamærunum að skyldu. Ríkisstjórnin hefur hingað til talið mikilvægt að ferðalangar gætu valið sóttkví í staðinn.

Forsætisráðherra sagði í fréttum í gær að tillaga sóttvarnalæknis um að gera tvöfalda skimun á landamærunum að skyldu falli ekki að stefnu ríkisstjórnarinnar, sem hefur talið mikilvægt að bjóða ferðalöngum upp á val í þeim efnum. Forsætisráðherra sagði þó til skoðunar að gera skimunina gjaldfrjálsa sem ætti að minnka að fólk velji 14 daga sóttkví til að komast hjá skimun.

Núverandi fyrirkomulag rennur út 1. desember. Heilbrigðisráðherra segir málið til skoðunar.

„Ríkisstjórnin hefur þessa ákvörðun ekki beint fyrir framan sig á borðinu en við erum vön því að tala okkur fram til sameiginlegrar niðurstöðu og munum gera það í þessu efni líka,“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segir gögn sýna að það sé hættulegt að hafa val um 14 daga sóttkví.

„Það hafa borist smit út í samfélagið, frá þeim sem sögðust ætla að vera í 14 daga sóttkví, og ég held að það sé mjög óskynsamlegt að fara ekki eftir þessum ráðleggingum Þórólfs.“

Vandamálið hafi komið vegna þessa fyrirkomulags.

„Þegar að til landsins kom á sínum tíma hópur útlendinga frá Rúmeníu sem sögðust ætla að fara í tveggja vikna sóttkví og vildu ekki fara í skimun, og fóru síðan beint út í samfélagið,“ segir Kári.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.