Fótbolti

Heimir tók fram skóna og mætti Xavi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hvernig ætli Heimi Hallgrímssyni hafi gengið að eiga við Xavi.
Hvernig ætli Heimi Hallgrímssyni hafi gengið að eiga við Xavi. vísir/getty/vilhelm

Heimir Hallgrímsson, þjálfari Al-Arabi í Katar, tók fram takkaskóna í gær og mætti ekki ómerkari manni en Xavi.

Þjálfararnir í katörsku úrvalsdeildinni komu saman í gær, skiptu í tvö lið og skelltu sér út á grasið.

Heimir var m.a. í liði með Slavisa Jokanovic og Sabri Lamouchi. Jokanovic, sem er þjálfari Al-Gharafa, lék um tíma með Chelsea og varð Spánarmeistari með Deportivo La Coruna. Þá lék hann 64 landsleiki fyrir Júgóslavíu. Lamouchi, sem þjálfar Al-Duhail, lék m.a. með Parma og Inter og á tólf landsleiki fyrir Frakkland á ferilskránni.

Besti leikmaðurinn á vellinum var í hinu liðinu, sjálfur Xavi, þjálfari Al-Sadd. Hann átti frábæran feril með Barcelona og spænska landsliðinu og vann allt sem hægt er að vinna.

Heimir lék lengst af ferilsins með ÍBV en síðasti leikur hans var með KFS sumarið 2007.

Strákarnir hans Heimis í Al-Arabi eru í 7. sæti katörsku úrvalsdeildarinnar með fimm stig eftir fimm leiki. Liðið tryggði sér sæti í úrslitum Emír-bikarsins í Katar í síðustu viku. Aron Einar Gunnarsson skoraði fyrra mark Al-Arabi í 2-0 sigri á Al-Markhiya.

Heimir er með tvo Íslendinga sér til aðstoðar hjá Al-Arabi, þá Frey Alexandersson, aðstoðarþjálfara íslenska karlalandsliðsins, og Bjarka Má Ólafsson.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.