Innlent

Stefnir í metfjölda nema við Háskóla Íslands

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Jón Atli segir að reynt verði eftir bestu getu að taka á móti svo mörgum nemendum á næstu önn
Jón Atli segir að reynt verði eftir bestu getu að taka á móti svo mörgum nemendum á næstu önn Foto: Vilhelm Gunnarsson/Vilhelm Gunnarsson

Tvöfalt fleiri hafa sótt um framhaldsnám við Háskóla Íslands en á sama tíma í fyrra og allt bendir til að nemendum fjölgi um fimmtung á vorönn.

Háskóla Íslands barst metfjöldi umsókna í grunn- og framhaldsnám í vor eða hátt í 11.700 sem þýðir að metfjöldi leggur nú stund á nám við skólann, tæplega 15.000 manns.

Nú hafa 1100 umsóknir borist í framhaldsnám á vormisseri en á sama tíma í fyrra voru þær 550 - og ekki útilokað að þeim muni fjölga enn frekar. Þá stefnir líka í fjölgun umsókna í grunnnám. Allt bendir nú til að met verði aftur slegið þegar nemendur verða hátt í sextán þúsund á vorönn.

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, segir skólann gera sitt allra besta til að taka á móti nemendunum. Starfsfólk og húsnæðiskostur ætti ekki að vera vandamál.

„Það er nú þegar gríðarlega mikið álag á starfsfólki en við teljum að við höfum húsnæðið og munum vinna að því að gera þetta eins vel og hægt er,“ segir Jón Atli.

Hann segist búast við því að fá stuðning stjórnvalda til þess að geta sinnt þessum nemendahópum.

„Það er mikilvægt að stjórnvöld styðji þetta starf. Haldi áfram að tryggja það að háskólastarf sé stutt fjárhagslega svo háskólinn geti staðið að þessu.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.