Innlent

Nítján greindust með veiruna innanlands í gær

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Myndin er tekin í gær á nýrri Covid-19-göngudeild á hjúkrunarheimilinu Eir en deildin er hugsuð fyrir íbúa hjúkrunarheimila sem smitast af kórónuveirunni en þurfa ekki á innlögn á sjúkrahús.
Myndin er tekin í gær á nýrri Covid-19-göngudeild á hjúkrunarheimilinu Eir en deildin er hugsuð fyrir íbúa hjúkrunarheimila sem smitast af kórónuveirunni en þurfa ekki á innlögn á sjúkrahús. Vísir/Vilhelm

Nítján manns greindust með kórónuveiruna innanlands í gær samkvæmt uppfærðum tölum á covid.is. Ekki hafa færri greinst smitaðir innanlands síðan 16. september, þegar þeir voru einnig nítján talsins.

Tólf þeirra sem greindust í gær voru í sóttkví við greiningu eða 63% og sjö voru utan sóttkvíar.

Alls er nú 735 manns í einangrun hér á landi og 1.414 í sóttkví. 78 manns liggja á sjúkrahúsi vegna Covid-19 en þar af eru fjórir á gjörgæslu.

Sjö greindust á landamærunum; þrír greindust með virk smit í seinni landamæraskimun og beðið er niðurstöðu mótefnamælingar hjá fjórum öðrum.

Alls voru tekin 1.063 einkennasýni og 233 sýni í sóttkvíar- og handahófsskimunum. 485 sýni voru tekin í landamæraskimun.

Nýgengi innanlandssmita er 177,8 og nýgengi landamærasmita 18.

Alls hafa nú 5.039 manns greinst með kórónuveiruna hér á landi frá upphafi faraldursins í lok febrúar. Átján manns hafa látist vegna Covid-19; tíu manns í fyrstu bylgjunni og átta í þeirri bylgju sem nú gengur yfir.

Tæp vika er nú síðan hörðustu sóttvarnaaðgerðir sem gripið hefur verið til hingað til í faraldrinum tóku gildi. Síðan þá hafa innan við þrjátíu smit greinst dag og eins og áður segir voru þeir innan við tuttugu í gær.

Fréttin hefur verið uppfærð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×