Fótbolti

Vill sekta leikmann Celtic um tveggja vikna laun fyrir að kíkja á símann sinn meðan leik stóð

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mohamed Elyounoussi í leik Celtic og Spörtu Prag í Evrópudeildinni í gær.
Mohamed Elyounoussi í leik Celtic og Spörtu Prag í Evrópudeildinni í gær. getty/Rob Casey

Chris Sutton gagnrýndi Mohamed Elyounoussi harðlega fyrir að kíkja á símann sinn á meðan leik Celtic og Spörtu Prag í Evrópudeildinni í gær stóð.

Celtic tapaði leiknum, 1-4, en þetta var þriðja tap liðsins á heimavelli í röð. Þrjátíu ár eru síðan Celtic tapaði síðast þremur leikjum í röð á Celtic Park.

Elyounoussi var í byrjunarliði Celtic í gær en var tekinn af velli á 59. mínútu. Hann sást seinna kíkja á símann sinn þar sem hann sat uppi í stúku. Og það var Sutton ekki ánægður með.

„Það er leikmaður að skoða símann sinn. Það er óboðlegt, algjörlega óboðlegt. Þetta er skandall. Er hann með hugann við verkefnið? Ég myndi sekta hann um tveggja vikna laun fyrir þetta,“ sagði Sutton sem var sérfræðingur BT Sport um leikinn.

Sutton lék með Cetic á árunum 2000-06 og varð fjórum sinnum skoskur meistari með liðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×