Fótbolti

Giggs í leyfi frá störfum sem landsliðsþjálfari eftir atvik næturinnar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ryan Giggs á æfingu með velska landsliðinu.
Ryan Giggs á æfingu með velska landsliðinu. Getty/Charles McQuillan

Ryan Giggs og velska knattspyrnusambandið hafa ákveðið í sameiningu að Giggs muni ekki stýra velska landsliðinu í leikjunum í nóvember.

Wales á spila þrjá leiki í nóvembermánuði sem eru á móti Bandaríkjunum, Írlandi og Finnlandi.

Velska sambandið sendi frá sér fréttatilkynningu þar sem kemur fram að Ryan Giggs og yfirmenn sambandsins hafi tekið þessa sameiginlegu ákvörðun í dag.

Þessi ákvörðun kemur í framhaldi af því að Ryan Giggs var handtekinn grunaður um að hafa ráðist á kærustu sína. Hann hefur neitað sök og segist aðstoða lögregluna við rannsókn málsins.

Ryan Giggs ætlaði að halda blaðamannafund í dag þar sem ætlun hans var að tilkynna hópinn sinn. Sá blaðamannafundur fer fram á fimmtudaginn kemur og þar verður enginn Giggs.

Knattspyrnusamband Wales segir í umræddri fréttatilkynningu í dag að Robert Page, aðstoðarmaður Ryan Giggs, muni stýra velska liðinu í þessum þremur landsleikjum.

Ryan Giggs er 46 ára gamall og hefur verið landsliðsþjálfari Wales frá árinu 2018. Hann var leikmaður Manchester United frá 1990 til 2014, vann þrettán enska meistaratitla með félaginu og er leikjahæsti og sigursælasti leikmaðurinn í sögu Manchester United.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×