Fótbolti

Lagerbäck vonsvikinn vegna „amatöranna“

Sindri Sverrisson skrifar
Lars Lagerbäck hefur þjálfað Noreg síðustu ár og stýrir liðinu í Þjóðadeildinni síðar í þessum mánuði.
Lars Lagerbäck hefur þjálfað Noreg síðustu ár og stýrir liðinu í Þjóðadeildinni síðar í þessum mánuði. Getty/Trond Tandberg

Lars Lagerbäck, þjálfari norska landsliðsins í fótbolta, harmar það að einhver eða einhverjir í norska hópnum skuli hafa lekið því í fjölmiðla hvað gekk á í síðasta landsliðsverkefni.

Norski miðillinn Verdens Gang greindi fyrstur frá rifrildi Lagerbäcks við framherjann Alexander Sörloth, sem gagnrýnt hafði undirbúning og leikskipulagi Noregs í tapleiknum gegn Serbíu í EM-umspilinu í síðasta mánuði.

Sörloth og Lagerbäck rifust í dágóðan tíma, fyrir framan allan leikmannahóp Noregs, og ljóst að einhver úr hópnum hefur lýst atburðarásinni fyrir VG.

Á blaðamannafundi í dag, þar sem Lagerbäck kynnti nýjan landsliðshóp sinn fyrir komandi landsleiki í nóvember, snerist umræðan mikið um þetta mál. Jafnvel þó að Lagerbäck og Sörloth hafi kvittað undir yfirlýsingu um að málinu væri lokið og að af því yrðu ekki frekari eftirmálar.

Lagerbäck tjáði sig ekki mikið um málið í dag en beindi spjótum sínum að VG og heimildamanni miðilsins.

„Fyrir mér er landsliðið fyrir atvinnumenn. Þeir sem að leka sögum sem eru slæmar fyrir landsliðið vil ég kalla amatöra. Með því að skapa svona umhverfi fyrir landsliðið þá eyðileggja menn atvinnumannamenninguna sem við viljum byggja upp. Þetta er svo sannarlega ekki gott,“ sagði Lagerbäck.

Gekk á brott eftir að hafa gagnrýnt VG

Svíinn, sem kveðst aldrei hafa lent í sams konar máli á löngum ferli sem landsliðsþjálfari Svíþjóðar, Nígeríu, Íslands og nú Noregs, hyggst tala um það við leikmenn sína þegar þeir koma saman í næstu viku hvernig svona mál hafi ratað í fjölmiðla.

„Þeir verða að hugsa út í málið. En ég get ekki sagt að ef ég vissi hver hefði lekið fréttinni þá yrði sá hinn sami tekinn úr landsliðinu. Þá myndi ég vilja vita hvernig þetta gerðist, frá þeim manni. Svo veit ég ekki hversu margir leikmenn blandast inn í þetta, svo ég verð að gæta varúðar. Mín reynsla af þessum hópi hefur verið stórkostleg og ég vona að þetta hafi verið einangrað tilvik,“ sagði Lagerbäck.

Lagerbäck sagði frétt VG í meginatriðum rétta en að miðillinn hefði þó farið frjálslega með lýsingar af atburðarásinni og ekki lýst henni eins og hún kom honum fyrir sjónir. Þegar blaðamaður VG bað þjálfarann um að ræða við sig eftir fundinn gekk Lagerbäck á brott.


Tengdar fréttir

Segir Lagerbäck ekki fara með rétt mál

Skilaboðin halda áfram að fljúga á milli Alexander Sörloth og Lars Lagerbäck eftir hávaðarifrildi þeirra í kjölfar þess að norska landsliðið í fótbolta féll út úr EM-umspilinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×