Fótbolti

Nýr þjálfari Ragnars skildi gamla vinnuveitendur eftir furðu lostna

Sindri Sverrisson skrifar
Ragnar Sigurðsson er kominn með nýjan þjálfara í Danmörku. Samningur Ragnars við FCK er til næsta sumars.
Ragnar Sigurðsson er kominn með nýjan þjálfara í Danmörku. Samningur Ragnars við FCK er til næsta sumars. VÍSIR/GETTY

Landsliðsmaðurinn Ragnar Sigurðsson er kominn með nýjan þjálfara hjá danska knattspyrnuliðinu FC Kaupmannahöfn. Þjálfarinn skildi sína gömlu vinnuveitendur eftir gapandi af undrun.

FCK hóf nýtt keppnistímabil illa í haust og rak þjálfarann Ståle Solbakken, sem stýrt hafði danska stórveldinu um langt árabil. Leit hefur staðið yfir að arftaka hans síðustu vikur og í dag var Jess Thorup kynntur sem nýr þjálfari liðsins.

Athygli vekur að aðeins einn og hálfur mánuður er síðan að Thorup, sem er fimmtugur Dani, tók við belgíska liðinu Genk. Þegar tilboðið frá FCK barst hugsaði hann sig ekki tvisvar um enda þjálfastarfið hjá FCK „stærsta tækifærið sem í boði er í skandinavískum fótbolta,“ að hans mati.

Í yfirlýsingu frá Genk segir: „Félagið er bæði hissa og vonsvikið og svekkt yfir að Jess skuli yfirgefa okkur fyrir aðra áskorun eftir svo stuttan tíma og nokkur frábær úrslit.“

Eftir sigra í síðustu tveimur leikjum, þrátt fyrir að vera án Ragnars vegna meiðsla, er FCK með 10 stig í 8. sæti dönsku úrvalsdeildarinnar, eftir sjö leiki. Liðið er þremur stigum á eftir efstu liðum.

Jess Thorup hefur starfað í Belgíu frá árinu 2018 en hann stýrði Gent áður en hann tók við Genk fyrir skömmu. Thorup þjálfaði FC Midtjylland með afar góðum árangri árin 2015-2018, og skildi við liðið sem Danmerkurmeistara. Hann þjálfaði áður U21-landslið Danmerkur 2013-2015, meðal annars í leikjum við Ísland, og enn fyrr lið Esbjerg.


Tengdar fréttir

Krísa í Kaupmannahöfn

Það er ekki bjart yfir FCK, danska stórveldinu, þessa daganna. Liðið er með fjögur stig eftir fyrstu fimm leikina í danska boltanum, er úr leik í Evrópudeildinni og búið að reka stjórann til margra ára úr starfi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×