Sport

Um­fangs­miklar stuðnings­að­gerðir í bí­gerð

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, og Ásmundur Einars Daðason, félags- og barnamálaráðherra.
Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, og Ásmundur Einars Daðason, félags- og barnamálaráðherra. Stjórnarráð Íslands

Ríkisstjórn Íslands samþykkti á fundi sínum í gær tillögu Ásmundar Einars Daðasonar, félags- og barnamálaráðherra, og Lilju D. Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, þess efnis að ráðist verði í aðgerðir til að koma til móts við íþrótta- og æskulýðsfélögum landsins vegna þeirrar röskunar sem Covid-19 faraldurinn hefur haft á starf þeirra.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vefsíðu Stjórnarráðs Íslands í dag.

Þar segir meðal annars að:

„Í aðgerðum stjórnvalda verður stefnt á að útvíkka úrræði Vinnumálastofnunar þannig að tryggt verði að í þeim tilvikum sem íþróttafélagi eða samstarfsaðilum ÍSÍ er gert að láta af starfsemi sinni vegna sóttvarna geti félagið sótt um styrki vegna launagreiðslna til starfsmanna sem ekki geta sinnt starfi sínu á því því tímabili sem sóttvarnaaðgerðir standa yfir enda hafi önnur úrræði stjórnvalda ekki gagnast í þessum tilgangi.“

„Einnig verði þessum aðilum gert kleift að sækja um styrki vegna verktakakostnaðar af sömu ástæðum. Styrkfjárhæðir skuli verða sambærilegar og önnur úrræði stjórnvalda hafa innifalið og gert verði ráð fyrir að þetta muni gilda frá 1. október sl.“

„Þá verður íþrótta- og æskulýðsfélögum, ásamt sambandsaðilum ÍSÍ, gert kleift að sækja um sérstaka styrki vegna tekjufalls á tímabilinu 1. júní sl. til 1. október sl. Einnig verður þessum aðilum gert kleift að sækja um styrki vegna verktakakostnaðar frá 1. október sl. og þar til starfsemi hreyfingarinnar kemst í eðlilegt horf. Orsakir þessa tekjufalls og verktakagreiðslna þurfa að hafa verið vegna sóttvarna á því tímabili sem sóttvarnaaðgerðir standa yfir. Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands mun sjá um umsýslu aðgerðarinnar.“

Endanlegar útfærslur á tillögunum verða unnar í samstarfi við íþróttahreyfinguna og gert er ráð fyrir að útfærslan liggi fyrir eigi síðar en 10. nóvember 2020.

Tilkynningu þeirra Ásmundar og Lilju ásamt ummælum frá þeim báðum má finna á vef Stjórnarráðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×