Innlent

Hefja undirskriftasöfnun til að sýna fjölskyldunni stuðning

Elísabet Inga Sigurðardóttir og Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifa
Fjölskyldan á sér þá ósk heitasta að geta búið áfram á Íslandi.
Fjölskyldan á sér þá ósk heitasta að geta búið áfram á Íslandi. Vísir/Sigurjón

Vinir fjölskyldunnar sem vísa á að óbreyttu úr landi eftir sex ára dvöl hérlendis hafa hrundið af stað undirskriftarsöfnun til stuðnings fjölskyldunni. Lögmaður fjölskyldunnar bíður eftir endurupptöku málsins.

Í kvöldfréttum í gær sögðum við frá hjónunum Bassirou Ndiaye og Mahe Diouf sem eru frá Senegal en hafa búið sér í tæp sjö ár en verður að óbreyttu vísað úr landi. Dætur þeirra sem eru sex og þriggja ára eru báðar fæddar hér á landi.

Hjónin hafa án árangurs barist fyrir því í sex ár að fá dvalarleyfi hér á grundvelli mannúðarsjónarmiða, óskað eftir alþjóðlegri vernd eða dvalarleyfi vegna sérstakra tengsla við landið. Síðasti úrskurður í máli þeirra kom á föstudag þegar Landsréttur dæmdi að úrskurður Útlendingastofnunar og kærunefndar útlendingamála skuli standa. 

„Við verðum að standa saman og krefjast þess að þeim Regine Martha og Elodie Marie ásamt foreldrum sínum þeim Bassirou og Mahe verði ekki vísað úr landi út í óvissuna. Þær eru 3 og 6 ára og eru fæddar hér og þekkja ekki neitt annað. Það myndi valda þeim óbærilegum skaða að rífa þær upp úr sínu umhverfi og senda til ókunnugs lands þar sem þeim er hætta búin,“ segir í lýsingu undirskriftasöfnunarinnar. 

„Nú verður að skora á stjórnvöld að veita þeim dvalarleyfi á Íslandi. Það verður að brýna stjórnvöld til að hafa hagsmuni barna að leiðarljósi við slíkar ákvarðanir.“

Elín Árnadóttir, lögmaður fjölskyldunnar hefur farið fram á enn eina endurupptöku málsins hjá kærunefnd útlendingamála.

„Málið er bara í ferli en þetta vakti mikil viðbrögð og ég er að fá mikið af skilaboðum, fólk vill endilega sýna þessu stuðning og ég veit að það eru vinir þeirra og velunnarar að fara að hrinda af stað undirskriftasöfnun til að sýna þeim stuðning,“ sagði Elín Árnadóttir, lögmaður í hádegisfréttum Bylgjunnar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×