Innlent

Vaktin: Hertar aðgerðir kynntar í Hörpu

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Ráðherrabílar lagðir fyrir utan ráðherrabústaðinn í morgun. Ríkisstjórnarfundur hófst klukkan níu, hálftíma fyrr en vanalega, þar sem minnisblað sóttvarnalæknis er á dagskrá.
Ráðherrabílar lagðir fyrir utan ráðherrabústaðinn í morgun. Ríkisstjórnarfundur hófst klukkan níu, hálftíma fyrr en vanalega, þar sem minnisblað sóttvarnalæknis er á dagskrá. Vísir/vilhelm

Áframhaldandi aðgerðir vegna kórónuveirunnar verða kynntar í dag en boðað hefur verið að þær verði hertar frá því sem nú er. Fylgst verður með framvindu dagsins í beinni útsendingu hér á Vísi.

Uppfært: Fundinum er lokið en hér að neðan má sjá upptöku frá honum í heild sinni.

Helstu aðgerðir sem Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra kynnti á blaðamannafundinum og taka munu gildi strax á miðnætti eru þessar:  

  • Þyngst vegur það að samkomutakmarkanir fara úr tuttugu manns í tíu. 
  • Áfram gildir tveggja metra regla og aukin áhersla verður á grímunotkun. 
  • Krár og skemmtistaðir verða lokaðir, sundlaugar verða lokaðar, íþróttastarf leggst af og börn fædd 2015 og seinna eru undanskilin tveggja metra reglu, fjöldatakmarkanir og grímuskyldu.
  • Gert er ráð fyrir að fleiri en tíu megi koma saman í matvöruverslunum og apótekum en í öðrum verslunum eru tíu manna takmörk.

Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra segir að skólar verði áfram opnir en þar verði einhverjar takmarkanir. Þær verði kynntar um helgina. Þá hafi ríkisstjórnin stóraukið fjárframlög til menntakerfisins. 

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að ekki hafi verið erfitt að ná samstöðu um aðgerðirnar. Hún bendir á að á fundinum hafi verið ræddar frekari efnahagsaðgerðir vegna faraldursins, til dæmis útvíkkun á tekjufallsstyrkjum og styrki til íþróttahreyfingarinnar.

Fundur ríkisstjórnarinnar hófst klukkan níu í morgun í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu þar sem minnisblað Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis um tillögu að aðgerðum er á dagskrá. 

Þórólfur sagðist eftir blaðamannafundinn í Hörpu bjartsýnn á að aðgerðirnar beri árangur eftir eina til tvær vikur, taki allir þátt.

Fylgst var með helstu tíðindum dagsins í vaktinni hér fyrir neðan.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.
Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.