Fótbolti

Ferguson sagði Arnóri að Eiður yrði að beita þrýstingi

Sindri Sverrisson skrifar
Eiður Smári Guðjohnsen fór frá Chelsea til Barcelona og var hluti af einu albesta knattspyrnuliði allra tíma.
Eiður Smári Guðjohnsen fór frá Chelsea til Barcelona og var hluti af einu albesta knattspyrnuliði allra tíma. Getty/Mike Egerton

Manchester United og Real Madrid höfðu áhuga á að fá Eið Smára Guðjohnsen frá Chelsea sumarið 2006, þegar hann gekk á endanum í raðir Barcelona.

Arnór Guðjohnsen, faðir Eiðs og umboðsmaður, rifjaði upp þessa tíma í hlaðvarpsþætti Sölva Tryggvasonar þar sem hann er nýjasti gesturinn.

Eiður hafði verið í sex ár hjá Chelsea og unnið tvo Englandsmeistaratitla undir stjórn Jose Mourinho, þegar hann ákvað að leita annað, þá 27 ára gamall.

„Mér fannst svona á liðinu og Mourinho, að núna væri „momentið“ þar sem að Eiður yrði seldur. Ég átti fund með framkvæmdastjóranum Peter Kenyon og hann tekur undir að nú sé rétta momentið bæði fyrir félagið og hann sjálfan til að færa sig um set. Nema, að „þú mátt ekki fara með hann til Manchester United og ekki til Arsenal“. Hann mátti fara allt annað. En svo segir hann við mig; „Real Madrid er búið að biðja okkur um að selja hann ekki áður en þeir fá að bjóða í hann“,“ sagði Arnór.

Ástæðan fyrir því að Real Madrid þurfti frest var sú að ekki var búið að velja nýjan forseta hjá félaginu.

„Í millitíðinni kemur Barcelona og það var ekkert aftur snúið,“ sagði Arnór, en ekki munaði miklu að Eiður færi á Old Trafford og spilaði undir stjórn sir Alex Ferguson:

„Ég talaði meira að segja við Ferguson sem hafði mjög mikinn áhuga á að fá hann. Hann segir við mig; „ef að það á að selja strák eins og Eið þá er ég knúinn til að koma inn í dæmið. En, þú verður algjörlega að sjá um að sú sala geti farið fram. Það er að segja, Eiður verður að hafa þannig þrýsting að fá að fara frá Chelsea til Manchester“,“ sagði Arnór.

Ekki fór þó svo að Eiður setti sérstakan þrýsting á Chelsea um að fara til United: „Barcelona kemur inn það skömmu eftir þetta, og það gekk tiltölulega fljótt fyrir sig að klára það,“ sagði Arnór við Sölva.

Þáttinn í heild má sjá hér að neðan:

Þátturinn á Youtube

Þátturinn á Spotify




Fleiri fréttir

Sjá meira


×