Sport

Stjörnuútherji gifti sig í frívikunni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Brúðhjónin DJ Chark yngri og Chantelle voru ánægð með daginn.
Brúðhjónin DJ Chark yngri og Chantelle voru ánægð með daginn. Twitter/@@DJChark82

NFL-deildin er í fullum gangi og við erum í miðjum heimsfaraldri en einn af stjörnuútherjum NFL-deildarinnar nýtti samt sem áður nokkra frídaga hjá sér í vinnunni til að gifta sig.

DJ Chark, stjörnuútherji Jacksonville Jaguars, giftist æskuástinni sinni en þau hafa verið saman síðan hann var sautján ára gamall.

DJ Chark bað Chantelle í maí síðastliðnum og þau gengu síðan í hjónaband í látlausri athöfn í gær. Chark birti myndir af giftingunni á Twitter reikningi sínum eins og sjá má hér fyrir neðan.

Leikjadagskrá NFL-deildarinnar er sett þannig upp að liðin spila einu sinni í hverri viku frá byrjun september fram til loka desember fyrir utan eina fríviku.

Frívikan kemur á mismunandi tímum fyrir liðin og lið Jacksonville Jaguars er einmitt í fríi í þessari viku sem er áttunda vika tímabilsins.

Jacksonville Jaguars spilaði í Los Abgeles á sunnudaginn var og næsti leikur liðsins er ekki fyrr en á heimavelli á móti Houston Texans 8. nóvember næstkomandi.

DJ Chark er 24 ára gamall og hefur spilað með Jaguars liðinu síðan 2018. Félagið valdi hann númer 61 í nýliðavalinu 2018 og hann hefur staðið sig mjög vel hjá liðinu. Chark yngri eins og hann kallar sig skoraði átta snertimörk í fyrra og er kominn með þrjú á þessu tímabili.

Chark náði reyndar aðeins að grípa eina af sjö sendingum í síðasta leik og spurning hvort hann hafi verið eitthvað kominn með hugann við brúðkaupið.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×