Fótbolti

Bartomeu henti fram „sprengju“ um leið og hann sagði af sér hjá Barcelona

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Josep Maria Bartomeu talar við blaðamenn á fundinum í gær.
Josep Maria Bartomeu talar við blaðamenn á fundinum í gær. EPA-EFE/GERMAN PARGA

Barcelona er búið að samþykkja að vera með í nýrri úrvalsdeild Evrópu ef marka má orð fráfarandi forseta Barcelona á blaðamannafundi í gærkvöldi.

Margir voru búnir að kalla lengi eftir afsögn Josep Maria Bartomeu og óánægja Lionel Messi með stjórn félagsins hefur lengi verið fjölmiðlamatur.

Josep Maria Bartomeu hefur verið forseti Barcelona í sex ár og í stjórnartíð hans hefur liðið farið frá því að vera eitt allra besta fótboltalið heims í lið á hraðri niðurleið sem tapaði meðal annars 8-2 fyrir Bayern München í Meistaradeildinni í sumar.

Lionel Messi var búinn að fá nóg og ætlaði að yfirgefa félagið í haust en eftir brottför Bartomeu eru menn jafnvel farnir að búast við nýjum samningi.

Josep Maria Bartomeu passaði sig þó að fara í burtu með látum því hann henti fram sprengju á sama blaðamannafundi og hann tilkynnti um afsögn sína.

Bartomeu sagði frá því á fundinum að hans síðasta verk sem forseti Barcelona hafi verið að samþykkja það að Barcelona tæki þátt í nýrri úrvalsdeild Evrópu.

„Ég get sagt ykkur frá stórmerkilegum fréttum. Í gær samþykktum við tillögu um að taka þátt í úrvalsdeild Evrópu í framtíðinni. Þetta mun tryggja stöðugleika í fjármálum félagsins. Við höfum einnig samþykkt nýja heimsmeistarakeppni félagsliða,“ sagði Josep Maria Bartomeu á blaðamannafundinum í gær.

Nýja evrópska úrvalsdeildin er deild á vegum FIFA sem á að innihalda átján af stærstu félögum heims og búa til mikinn pening fyrir viðkomandi félög. Hún er hins vegar sett fram þvert á vilja UEFA og margir líta á hana sem ógn við fótboltann því ríku félög heimsins myndu þá verða enn ríkari.

Fyrr í mánuðunum fréttist af því að Liverpool og Manchester United væru í leyniviðræðum um að vera með og þessi yfirlýsing Josep Maria Bartomeu staðfestir að það sé eitthvað mikið að gerast á bak við tjöldin.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.