Fótbolti

Norskur FIFA-dómari kom út úr skápnum og á alla forsíðuna hjá VG í dag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tom Harald Hagen að dæma Evrópudeildarleik á milli Newcastle United og FC Metalist Kharkiv á St James' Park.
Tom Harald Hagen að dæma Evrópudeildarleik á milli Newcastle United og FC Metalist Kharkiv á St James' Park. Getty/Stu Forster

Stærsta blað Norðmanna fagnar því að einn fremsti FIFA-dómari Norðmanna hafi kom út úr skápnum í gær.

Norski FIFA-dómarinn Tom Harald Hagen sagði frá því í viðtali við staðablaðið sitt Glåmdalen í gær að hann sé samkynhneigður. Norska stórblaðið Verdens Gang gerir mikið úr því í gær og dag að einn besti knattspyrnudómari landsins hafi komið út úr skápnum.

Hingað til hefur enginn knattspyrnumaður eða knattspyrnuþjálfari í Noregi komið út út skápnum sem hommi og þykir ákvörðun Tom Harald Hagen vera bæði hugrökk og mikil himnasending í baráttunni við fordóma gagnvart samkynhneigð í norskum fótbolta.

Tom Harald Hagen á þannig alla forsíðuna á íþróttakálfi Verdens Gang í dag eins og sjá má hér fyrir neðan. Þar má sjá risastóra mynd af Hagen og um leið er titill blaðsins í öllum regnbogans litum.

„Ég hef hægt og rólega fengið meira sjálfstraust og lífið mitt er gott í dag. Mér finnst það mikilvægt að fela ekkert og þar á meðal það að ég sé samkynhneigður. Ég hef lifað þannig allt mitt líf og það er ekki eitthvað sem ég að hugsa um. Það er mitt daglegt líf, mín sambönd, mín fjölskylda og mín fótboltafjölskylda. Ég get farið út með höfuðið hátt nema þegar ég klúðra einhverjum ákvörðunum á fótboltavellinum,“ sagði Tom Harald Hagen í viðtalinu úr Glåmdalen sem Verdens Gang fékk að endurbirta.

Hagen segir að það sé örlítið ógnvekjandi að koma fram með þetta í fjölmiðlum en er á því að tímasetningin sé góð.

Tom Harald Hagen er 42 ára gamall, hefur dæmt í norsku úrvalsdeildinni í fjórtán ár og hefur verið alþjóðlegur dómari frá árinu 2009.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×