Fótbolti

Maradona grínaðist með „Hendi guðs“ í tilefni sextugsafmælins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Markið fræga sem Diego Maradona skoraði með hendi guðs á HM í Mexíkó 1986.
Markið fræga sem Diego Maradona skoraði með hendi guðs á HM í Mexíkó 1986. Getty/Samsett

Argentínska knattspyrnugoðsögnin Diego Armando Maradona heldur upp á stórafmæli á föstudaginn kemur því hann kom í heiminn á 30. október fyrir sextíu árum síðan.

Eitt umdeildasta og um leið frægasta mark Diego Maradona á ferlinum var fyrra mark hans á móti Englandi í átta liða úrslitum á HM í Mexíkó 1986.

Maradona komst þá upp með að skora með hendinni í úrslitakeppni HM og talaði um það eftir leikinn að það hafi verið hendi guðs sem skoraði markið.

Skömmu síðar sólaði Maradona sig í gegnum alla ensku vörnina og skoraði sitt annað mark sem er af mörgum talið vera flottasta mark HM-sögunnar.

Argentína vann síðan Belgíu í undanúrslitunum og tryggði sér heimsmeistaratitilinn með 3-2 sigri á Vestur-Þýskalandi í úrslitaleiknum. Maradona tók við bikarnum í mótslok en HM 1986 er talið vera eitt af þeim heimsmeistaramótum sem einn maður komst nálægt því að vinna upp á sitt einsdæmi.

Maradona var með fimm mörk og fimm stoðsendingar í sjö leikjum og kom því með beinum hætti að tíu af fjórtán mörkum heimsmeistarana eða 71 prósent markanna.

Diego Maradona virðist vera stoltur af því að hafa skorað þetta kolólöglega mark í þessum mikilvæga leik á HM. Hann var í það minnsta tilbúinn að grínast með þetta mark í tilefni stórafmælis síns.

Diego Maradona sagði nefnilega bara óska sér eins í afmælisgjöf. Í viðtali við franska blaðið France Football þá talaði um þessa óhefðbundu afmælisósk.

Maradona grínaðist nefnilega með það að það eina sem hann óskaði sér væri að skora aftur með hendi guðs á móti enska landsliðinu en fá að nota hina hendina núna.

„Mig dreymir um að geta skorað annað mark á móti Englandi en að þessu sinni með hægri hendinni,“ sagði Diego Maradona í viðtalinu við France Football.

Maradona hefur margoft varið það að hafa notað hendina og segist þar hafa verið að hefna sín á Englendingum vegna Falklandseyjastríðsins í byrjun níunda áratugarins.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.