Innlent

Stéttarfélög áhafnarinnar kæra til lögreglu og krefjast sjóprófs

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Júlíus6
Vísir/Hafþór

Stéttarfélög áhafnarinnar á Júlíusi Geirmundssyni ÍS 270 hafa ákveðið að kæra framgöngu Hraðfrystihússins Gunnvarar til lögreglu vegna meðferðarinnar á skipverjunum í síðasta veiðitúr togarans. Stéttarfélögin vilja að sjópróf verði haldin.

Tuttugu og tveir af 25 skipverjum sýktust af kórónuveirunni sem kom upp um borð fljótlega eftir að skipið lagði út á haf. Þrátt fyrir það hélt skipið áfram veiðum í túr sem tók þrjár vikur. Skipverjar hafa lýst miklu veikindum og telja útgerðina, Hraðfrystihúsið Gunnvöru, ekki hafa haft heilsu þeirra að leiðarljósi. Þá hefur lögregla hafið rannsókn á atburðunum á frystitogaranum.

Í tilkynningu á vef Verkalýðsfélags Vestfjarða segir að stéttarfélög áhafnarinnar hafi tekið höndum saman vegna málsins. Funduðu fulltrúar stéttarfélaganna með lögmönnum í morgun „um sameiginlegar aðgerðir vegna framgöngu Hraðfrystihússins Gunnvarar hf. og hunsun á tilmælum yfirvalda um viðbrögð við hópsmiti um borð í togaranum,“ líkt og segir á vef stéttarfélagsins.

Umrædd stéttarfélög eru auk Verkalýðsfélags Vestfjarða, Félag skipstjórnarmanna, Sjómannafélag Íslands, Sjómannasamband Íslands og VM - félag vélstjóra og málmtæknimanna.

Telja framgönguna vítaverða

Segir á vef Verkalýðsfélags Vestfjarða að félögin fimm telji framgöngu útgerðar togarans vera vítaverða og að ákveðið hafi verið að kæra málið til lögreglu. Auk þess er þess krafist að fram fari sjópróf, en Karl Ingi Vilbergsson, lögreglustjóri á Vestfjörðum sagði í samtali við fréttastofu fyrr í dag að ólíklegt væri að sjópróf færu fram, það heyri til undantekninga að slíkt sé gert.

Stéttarfélögin vilja engu að síður að málið verið rannsakað ítarlega.

„Stéttarfélögin eru sammála um að nauðsynlegt sé að rannsaka málið í kjölinn, fá allar staðreyndir upp á yfirborðið og draga þá til ábyrgðar sem stóðu að þeirri ákvörðun að halda skipinu til veiða í stað þess að bregðast við stöðunni með ábyrgum hætti.“


Tengdar fréttir

Framkvæmdastjórinn nýtur fulls trausts

Einar Valur Kristjánsson, framkvæmdastjóri Hraðfrystihússins Gunnvarar sem gerir út frystitogarann Júlíus Geirmundsson, nýtur traust stjórnar til að takast á við þau verkefni sem eru fram undan.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×