Erlent

Vara­­for­­seti þýska þingsins látinn eftir að hafa hnigið niður skömmu fyrir við­tal

Atli Ísleifsson skrifar
Thomas Oppermann hafði gegnt embætti varaforseta þýska þingsins frá árinu 2017.
Thomas Oppermann hafði gegnt embætti varaforseta þýska þingsins frá árinu 2017. Getty

Thomas Oppermann, varaforseti þýska þingsins, er látinn eftir að hafa hnigið niður skömmu fyrir tökur á sjónvarpsviðtali í gærkvöldi. Hann varð 66 ára.

Fjöldi samflokksmanna Oppermann í þýska Jafnaðarmannaflokknum segist vera í áfalli vegna fréttanna af andláti Oppermann.

Vinnumarkaðsmálaráðherrann Hubertus Heil staðfesti andlát Oppermann á Twitter-síðu sinni í morgun. Segist Heil vera mjög sorgmæddur vegna málsins. „Með ástríðu og skynsemi hefur Thomas þjónað landi okkar og jafnaðarmannastefnunni. Hugur minn er hjá fjölskyldu hans,“ sagði Heil.

DW segir frá því að Oppermann hafi hnigið niður í gærkvöldi þar sem sjónvarpsstöðin ZDF var að fara að ræða við hann. Oppermann hafi í kjölfarið verið fluttur á sjúkrahús og lést hann svo snemma í morgun.

Oppermann hóf stjórnmálaferil sinn á níunda áratugnum, fyrst í Neðra Saxlandi þar sem hann gegndi meðal annars embætti ráðherra vísindamála. Færði hann sig svo yfir í landsmálin.

Oppermann greindi frá því í sumar að hann hugðist ekki sækjast eftir endurkjöri í þingkosningunum sem fyrirhugaðar eru á næsta ári.

Hann hafði gegnt embætti varaforseta þingsins frá því í október 2017. Áður hafði hann gegnt stöðu þingflokksformanns hjá Jafnaðarmannaflokknum.

Í upphaflegri útgáfu fréttarinnar sagði að Oppermann hafi hnigið í miðju viðtali, en hið rétta er að það gerðist skömmu áður en viðtalið átti að hefjast.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×