Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra furðar sig á þeim viðbrögðum sem viðhöfð voru um borð í frystitogaranum Júlíusi Geirmundssyni og fordæmir þau. Hann vonar að dreginn verði lærdómur af málinu.
„Það er töluvert sárt að horfa upp á þetta svona. Ég þekki það bara af eigin reynslu, bæði sem gamall sjómaður og skipstjóri að það er ekkert mikilvægara um borð í sérhverju fiskiskipi heldur en heilsa og velferð skipverja og af umfjölluninni sem maður er að sjá að undanförnu um þetta mál að þá er alveg augljóst að þarna hafa menn farið freklega á svig við þessi grundvallaratriði,“ segir Kristján Þór í samtali við fréttastofu.
Vonandi sé um einangrað tilvik sé að ræða. „Það er augljóst að þetta er mjög slæmt mál. Fyrirtækið átti að taka á þessu með allt öðrum hætti, en hins vegar vil ég trúa því að þetta sé einangrað tilvik því við höfum önnur tilvik í þessum faraldri þar sem grunur hefur komið um önnur smit um borð og brugðist hárrétt við.“
Kristjáni Þór er brugðið yfir viðbrögðunum. „Um leið og maður lýsir yfir undrun og fordæmir í raun þessi viðbrögð í þessu tiltekna máli þá sýna dæmin almennt að í aðstæðum sem þessum er brugðist rétt við.“
Hann segir það ekki hans að dæma um hvort lögbrot hafi verið framin. „Það er ekki mitt að dæma í því. Þau mál heyra ekki undir mitt ráðuneyti en ef það er ástæða til ákæru að þá vona ég svo sannarlega að það verði bara tekið upp á réttum stað,“ segir Kristján Þór.